Páskaegg fyrr á ferðinni en í fyrra

Þorrinn hófst á bóndadaginn á föstudaginn. Enn eru rúmlega tveir …
Þorrinn hófst á bóndadaginn á föstudaginn. Enn eru rúmlega tveir mánuðir en þegar eru farin að sjást páskaegg í búðum. mbl.is/Eggert

Páskaeggin eru tveimur vikum fyrr á ferðinni í ár en í fyrra þar sem páskarnir eru snemma í ár. Þetta segir Silja Mist Sigurkarlsdóttir, vörumerkjastjóri hjá Nóa Siríus, í samtali við mbl.is, spurð hvers vegna páskaeggin séu þegar komin í verslanir.

„Við miðum alltaf við þennan tíma. Páskarnir eru tveimur vikum fyrr í ár svo við byrjum tveimur vikum fyrr en í fyrra,“ segir Silja Mist en egg númer eitt og tvö frá Nóa eru komin í verslanir og fjölgar tegundunum síðan jafnt og þétt eftir því sem nær dregur páskum. Í ár verður páskadagur sunnudaginn 1. apríl.

Silja Mist Sigurkarlsdóttir, vörumerkjastjóri hjá Nóa Siríus.
Silja Mist Sigurkarlsdóttir, vörumerkjastjóri hjá Nóa Siríus. Ljósmynd/Aðsend

Silja Mist segir skiptar skoðanir á því að byrja páskaeggjasöluna svona snemma, einhverjir séu á móti því en margir hæstánægðir. „Það er greinilega eftirspurn eftir þessu, við erum á fullu að fylla á,“ segir Silja. „Sumir eru ofboðslega mikil jólabörn en aðrir spenntir fyrir páskunum. Krökkunum finnst mjög gaman að sjá þetta í búðunum og við höfum fengið margar hringingar um hvað fólk sé glatt yfir að eggin séu komin í búðirnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert