Skattkerfið verði endurhugsað

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í leiðtogaumræðum á Alþingi að standa þyrfti enn betur að þróunaraðstoð en nú væri gert og virða skyldi samþykkta þingsályktunartillögu um hana frá árinu 2011.

Hann sagði mikilvægt að axla ríkari ábyrgð í málefnum flóttamanna, auk þess sem ganga ætti á undan með góðu fordæmi í loftslags- og jafnréttismálum.

„Mannkynið stendur frammi fyrir gríðarlegri tæknibyltingu sem mun gjörbreyta þjóðfélaginu. Innan fárra áratuga verður þátttaka mannsins í samfélaginu með allt öðrum hætti en við höfum þekkt hingað til.

Með nýrri tækni skapast mikil tækifæri til að komast á réttan kjöl. Framleiðni getur aukist gríðarlega, einnig möguleikar á vistvænni framleiðslu, sem nauðsynleg viðbrögð við loftslagsógninni, en síðast en ekki síst getur hún nýst til að jafna stöðu milli ríkari og fátækari hluta heimsins,“ sagði Logi.

„Þessum breytingum fylgja þó líka ógnir, ef ekki er rétt haldið á spilunum. Ekki þarf mikið hugmyndaflug til að sjá þá möguleika sem þessi tækni skapar í gerð nýrra vopna. Valdið og auðurinn getur færst á enn færri hendur, ójöfnuður aukist enn frekar og ýtt undir ófrið. 

Því fagna ég boðaðri þverpólitískri vinnu um þessi mál, í samræmi við framlagða þingsályktun Samfylkingarinnar frá tveimur síðustu þingum og hugmyndum fleiri þingflokka.  Þar þarf ekki síst að endurhugsa skattkerfið og tryggja að ágóðinn af tæknivæðingunni verði ekki allur eftir hjá fyrirtækjunum.“

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

6.000 börn sem búa við skort

Logi sagði áherslur nýrrar ríkisstjórnar, þegar kæmi að þeim sem hafa lökustu kjörin, vera mikil vonbrigði í ljósi þess að Ísland væri ríkt land og á einstöku hagvaxtaskeiði. 

Hann sagðist harma að skattkerfið og önnur tekjujöfnunartæki væru ekki nýtt til að bæta stöðu viðkvæmustu hópanna, meðal annars aldraðra, öryrkja, ungs fólks og tekjulágra.

Nefndi hann að gefnir skattar hefðu verið lækkaðir um 21 milljarð frá fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar sem hefði mátt nýta í baráttuna gegn fátækt og skorti. 

„Herra forseti, til þess að hafa raunveruleg tækifæri til þess að dafna, þroska og nýta hæfileika sína þarf fólk að búa við viðunandi kjör.

Það geta ekki þau 6.000 börn sem búa við skort, ungt fólk sem hrekst um á ótryggum, gróða væddum leigumarkaði eða öldruð hjón sem njóta eingöngu tekna frá almannatryggingum. Þau fá hvort um sig tæplega 250.000 kr. á mánuði eftir skatt. Heldur ekki aldraður einstaklingur sem fær 243.000 krónur eða öryrki sem nær ekki einu sinni þeirri upphæð. 

Þetta fólk getur ekki nýtt sér það fjölmarga sem Ísland hefur upp á að bjóða og telst nú til sjálfsagðra mannréttinda í dag. Þó það hafi kannski naumlega til hnífs og skeiðar, býr það við félagslega fátækt og vaxandi hópur þarf t.d. að neita sér um að leita til læknis,“ sagði Logi.

Þétting byggðar og borgarlína mikilvæg

Hann sagði þéttingu byggðar og borgarlínu höfuðborgarsvæðisins leika gríðarlega stórt hlutverk í loftslagsmálum.  „Í ljósi málflutnings fjögurra af fimm frambjóðendum, í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, skiptir máli að heyra í þingmönnum flokksins, um stefnu hans og ríkisstjórnarinnar, varðandi þessa þætti.“

Minntist á dómsmálaráðherra

Formaðurinn bætti við að traust væri lykilþáttur í því að Alþingi og stjórnvöld gætu risið undir skyldum sínum.

„En ef einhver heldur að traust aukist með dómsmálaráðherra, sem hefur verið dæmd í Hæstarétti, fyrir afskipti sín að dómsvaldinu eða flokki sem hefur ekki náð að klára þrjú síðustu kjörtímabil sín í ríkisstjórn, fer hinn sami villur vegar.

Ríkisstjórnin hefur nú lifað sína stuttu hveitibrauðsdaga. Samfylkingin er fús til samstarfs en þá verða ríkisstjórnarflokkarnir að koma af fullri alvöru með okkar í að lengja fæðingarorlof, lækka greiðsluþátttöku sjúklinga, byggja mun fleiri leiguíbúðir og gera betur í baráttunni gegn ójöfnuði og fátækt."

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tókust á um veiðigjöld 

Að ræðunni lokinni tókust Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Logi á um veiðigjöld og sagði sá síðarnefndi eðlilegt að bjóða út eitthvað af kvótanum. Kallaði hann Óla Björn fulltrúa frjálshyggjunnar.

„Ég skal fullyrða að það muni fyrst og fremst koma niður á byggðum, meðal annars í kjördæmi háttvirts þingmanns, ef hans hugmyndafræði og stefna þegar kemur að veiðigjöldum nær fram að ganga,“ sagði Óli Björn.

Bætti hann við að hugmyndafræði Loga byggist á því að ríkið ætti í rauninni allt sem einstaklingurinn og fyrirtækin öfluðu. „Þeirri hugmyndafræði er ég að berjast gegn. Ef það telst frjálshyggja er ég frjálshyggjumaður.“

Svaraði Logi því þannig að veiðigjöld væru ekki skattur, heldur gjald fyrir afnot af takmarkaðri auðlind.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert