Boða til nýs verkfalls á hendur Primera

Flugfreyjufélag Íslands undirbýr annað verkfall á hendur Primera Air Nordic.
Flugfreyjufélag Íslands undirbýr annað verkfall á hendur Primera Air Nordic.

Boðað verður til nýs verkfalls á hendur Primera Air Nordic SIA vegna starfsemi félagsins hér á landi. Stjórn og trúnaðarráð Flugfreyjufélags Íslands samþykkti einróma á fundi sínum að hefja þegar undirbúning að verkfalli. 

„Sérstaklega verði hugað að því að velja þann tíma ársins til verkfallsaðgerða sem ætla má að rekstur Primera sé í hámarki hér á landi.“ Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Á fundinum var jafnframt formanni FFÍ og Alþýðusambandi Íslands veitt heimild til að leita allra úrræða til þess að tryggja að íslensk stjórnvöld grípi nú þegar til þeirra aðgerða sem þeim er heimilt  til þess að stöðva ólöglega starfsemi og félagsleg undirboð Primera á íslenskum vinnumarkaði. 

„Slík starfsemi veldur bæði launafólki og íslensku samfélagi tjóni samhliða því að skapa Primera tækifæri til þess að keppa á grundvelli smánarlegra launa við þau flugfélög sem starfa löglega út frá Íslandi og sem FFÍ er með kjarasamninga við.“ Þetta segir enn fremur í tilkynningu. 

Í þessum aðgerðum geti falist að kvarta til Eftirlitsstofnunar Evrópska efnahagssvæðisins framfylgi stjórnvöld ekki tilskipunum Evrópusambandsins um vernd launafólks en þeim ber að fylgja kjósi fyrirtæki á EES svæðinu að starfa hér á landi líkt og Primera gerir.

Félagið harmar einnig að Primera hafi kosið að virða að vettugi ítrekuð fundarboð ríkissáttasemjara og sýna með því bæði embætti hans og íslenskum stjórnvöldum lítilsvirðingu. Félagið skorar á Primera að mæta á næsta boðaða sáttafund og hefja viðræður um gerð kjarasamnings við félagið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert