Hægt að fá innanlandsflug á undir 10.000 krónum

Ódýrasta flugið hjá Air Iceland Connect kostar því 9.725 krónur …
Ódýrasta flugið hjá Air Iceland Connect kostar því 9.725 krónur með innifalinni tösku. Það er næstódýrasta fargjaldið í samanburði á Norðurlöndunum, aðeins Svíþjóð er ódýrari. mbl.is/Árni Sæberg

„Við reynum að bjóða samkeppnishæf verð og teljum okkur gera það. Ýmsir vilja halda því fram að verð okkar séu ekki samkeppnishæf við það sem gengur og gerist. Því er mikilvægt að vandað sé til vinnubragða þegar verið er að skoða og bera saman verð,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.

Árni er ósáttur við samanburð Morgunblaðsins í dag á innanlandsflugi félagsins við flug á Norðurlöndunum. Niðurstaða óformlegrar könnunar blaðsins benti til þess að verð Air Iceland Connect á stöku flugi frá Reykjavík til Akureyrar væri allt að helmingi hærra en á sambærilegum flugleiðum í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Frétt mbl.is: Innanlandsflugið allt að tvöfalt dýrara

Í könnun blaðsins voru bornar saman flugferðir hjá SAS þar sem innifalin er ein innrituð 23 kílóa taska. Hjá Air Iceland Connect var valin sambærileg þjónustuleið þar sem innifalin er ein innrituð 20 kílóa taska. Jafnframt var bent á að ódýrari fargjöld voru í boði þennan dag þar sem aðeins var handfarangur innifalinn. Árni bendir hins vegar á í samtali við Morgunblaðið að í þeim þjónustuleiðum er hægt að kaupa sér töskuheimild fyrir 1.600 krónur. Því er í raun hægt að fá mun ódýrara flug hér en í fyrstu virtist.

Ódýrasta flugið hjá Air Iceland Connect kostar því 9.725 krónur með innifalinni tösku. Það er næstódýrasta fargjaldið í samanburði á Norðurlöndunum, aðeins Svíþjóð er ódýrari. Hins vegar ber að geta þess að þarna er aðeins um síðdegisflug að ræða, klukkan 16.10. Hádegisflugið og kvöldflugið í þessari þjónustuleið kostar 13.360 krónur. Morgunflugið kostar 17.604 krónur.

Árni segir að erlendum ferðamönnum hafi fjölgað mikið í vélum félagsins undanfarið. Sú fjölgun hafi haldist í takt við fjölgun erlendra ferðamanna hér. „Á undanförnum tveimur árum hefur orðið um 50 prósent fjölgun á erlendum ferðamönnum um borð í vélum okkar í innanlandsflugi,“ segir Árni og nefnir að hluta af þessari aukningu megi rekja til þess að hafið var beint flug frá Keflavík til Akureyrar. „Það hefur aukið möguleika erlendra ferðamanna að komast beint út á land,“ segir hann og bendir á að ráðist hafi verið í ýmsar aðgerðir til að gera ferðamönnum kleift að fara um allt land. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert