Haförninn Höfðingi tók flugið að nýju

Höfðingi tekur flugið að nýju
Höfðingi tekur flugið að nýju Ljósm/Höskuldur B. Erlingsson

Tignarlegt þótti að sjá þegar haförninn sem fannst við Staðarbakka í Miðfirði um síðustu helgi hóf sig til flugs að nýju í gærmorgun.

Þegar örninn, sem Þórarinn Rafnsson á Staðarbakka gaf nafnið Höfðingi, fannst þótti ástand fuglsins athugunarvert og því var farið með hann til sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands sem veittu honum aðhlynningu. Örninn var nokkuð grútugur og svangur en braggaðist að öðru leyti skjótt. Því var ekkert annað í stöðunni en að fara með örninn aftur á heimaslóðir sínar fyrir norðan og var hann frelsinu feginn.

„Krafturinn í erninum var mikill, hann var bókstaflega að springa af orku og þó mátti alveg búast við einhverju þrekleysi eftir flæking síðustu daga. Örninn var borinn til sleppingar vafinn inn í teppi en um leið og því hafði verið svipt af og takinu sleppt var fuglinn kominn á flug og ekki lengi að hverfa okkur sjónum þegar hann sveimaði suður á heiðar,“ segir Höskuldur B. Erlingsson lögregluvarðstjóri á Blönduósi sem var í Miðfirðinum í gær og fylgdist með hverju fram fór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert