Hlaut alþjóðleg gagnrýnendaverðlaun

Ísold Uggadóttir með verðlaunin.
Ísold Uggadóttir með verðlaunin. Ljósmynd/Andið eðlilega

Kvikmyndin Andið eðlilega hlaut í gærkvöld alþjóðleg gagnrýnendaverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í Svíþjóð. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu en kvikmyndinni er leikstýrt af Ísold Uggadóttur. Þetta er fyrsta mynd hennar í fullri lengd.

Evrópufrumsýning Andið eðlilega var á kvikmyndahátíðinni á föstudagskvöld og í gærkvöldi hlaut kvikmyndin síðan alþjóðlegu gagnrýnendaverðlaunin á lokakvöldi hátíðarinnar þar sem hin svokölluðu Drekaverðlaun voru veitt í ýmsum flokkum. 

Fram kemur í umsögn dómnefndar að verðlaunin hljóti að þessu sinni kvikmynd sem fáist við þann risastóra vanda sem fólksflutningar yfir landamæri í Evrópulöndum og víðar séu. Þá segir að Andið eðlilega búi bæði yfir húmor og snerti tilfinningalega við áhorfandanum.

Með aðalhlutverk fara leikkonurnar Kristín Þóra Haraldsdóttir og Babetida Sadjo en kvikmyndin fléttar saman sögum tveggja ólíkra kvenna, hælisleitanda frá Gíneu-Bissá og ungrar íslenskrar konu sem hefur störf við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli. Leiðir kvennanna liggja saman á örlagastundu í lífi beggja og tengjast þær óvæntum böndum segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert