Dimm snjókoma í fyrramálið

Lægð gengur yfir landið í nótt og fyrramálið með dimmri …
Lægð gengur yfir landið í nótt og fyrramálið með dimmri snjókomu. mbl.is/RAX

Enn ein lægðin gengur yfir landið seint í nótt og á morgun. Búast má við vaxandi austanátt og snjókomu suðaustanlands, frá Vík og austur á firði, seint í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni gengur í austanhvassviðri eða -storm með snjókomu víða um land í nótt, en heldur hægari vindur verður suðvestanlands.

Gul viðvörun er í gildi á öllu landinu, að undanskildum Breiðafirði og miðhálendinu.

Lík­ur eru á dimmri snjó­komu þegar fólk er á leið til vinnu og skóla í fyrramálið. „Það get­ur verið að það versta verði yf­ir­staðið á milli átta og níu. Þetta fer eft­ir staðsetn­ing­unni á lægðinni en það er eins og mesta snjó­kom­an í höfuðborg­inni verði seint í nótt eða snemma í fyrra­málið,“ sagði Har­ald­ur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is síðdegis.

Frétt mbl.is: Enn ein lægðin væntanleg

Veðurstofan vekur athygli á að snjókoman mun líklega falla á höfuðborgarsvæðinu þegar morgunumferðin er í hámarki, og bendir fólki á að gefa sér góðan tíma til að koma sér á milli staða í fyrramálið. 

Á morgun fer kröpp lægð norðvestur yfir landið með hvassviðri eða stormi og snjókomu víða. Annars staðar á landinu er von á suðlægari átt, minnkandi úrkomu og fer að lægja síðdegis. Hiti verður um eða undir frostmarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert