Enn ein lægðin væntanleg

Það mun snjóa seint í nótt og snemma í fyrramálið.
Það mun snjóa seint í nótt og snemma í fyrramálið. mbl.is/Eggert

„Við erum aðeins búin að missa töluna á því númer hvað þessi lægð er,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Lægð kemur yfir landið í fyrramálið en búast má við talsverðri snjókomu seint í nótt og snemma í fyrramálið á höfuðborgarsvæðinu.

Líkur eru á dimmri snjókomu þegar fólk er á leið til vinnu. „Það getur verið að það versta verði yfirstaðið á milli átta og níu. Þetta fer eftir staðsetningunni á lægðinni en það er eins og mesta snjókoman í höfuðborginni verði seint í nótt eða snemma í fyrramálið,“ segir Haraldur.

Hann segir að það muni snjóa í um það bil þrjá klukkutíma en veðrið gengur síðan rólega niður í eftirmiðdaginn á morgun. „Fólk sem þarf að fara í vinnu verður að gefa sér góðan tíma því umferðin verður eflaust hæg.

Haraldur segir að veðrið á höfuðborgarsvæðinu verði ekkert í líkingu við það sem var í gær en ekki verður jafn hvasst á morgun og var í gær. Hins vegar verður talsverður vindur í öðrum landshlutum seint í nótt og snemma í fyrramálið. Líkt og á höfuðborgarsvæðinu gengur veðrið niður í eftirmiðdaginn.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert