Fella niður óvenju marga ferðir

Vegalokanir hafa sett strik í reikninginn hjá rútufyrirtækjum.
Vegalokanir hafa sett strik í reikninginn hjá rútufyrirtækjum. mbl.is/Eggert

„Það er erfitt að meta það. Við sitjum alltaf uppi með ákveðinn kostnað, ætli hann sé ekki á bilinu 10 til 20 milljónir króna,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Reykjavik Excursion, spurður um kostnað fyrirtækisins við að fresta ferðum sínum vegna veðurs. Fyrirtækið þurfti að fresta öllum dagsferðum sínum í dag vegna vegalokana.  

Í heildina þurfti að fresta 16 dagsferðum sem hafði áhrif á um 1000 farþega í dag. Um helgina þurfti einnig að fresta nokkrum ferðum og margar ferðir sem voru farnar tóku mun lengri tíma en áætlað var í upphafi. „Sem betur fer finnst fólki þetta líka ævintýri að lenda í slíku,“ segir Björn.   

Um nýliðna helgi var talsverð töf á flugi til Keflavíkur þar af leiðandi þurfti að kalla til fjölda auka bílstjóra. Það hafði áhrif á um þrjú til fjögur þúsund manns. Á morgun er viðbúið að það verði mikið álag og að einnig þurfi að kalla  út auka bílstjóra til að fara í þær ferðir sem bókaða voru í dag. 

Fella hefur þurft niður óvenju margar rútuferðir um landið vegna veðurs það sem af er ári.  

„Þetta er erfiður tími fyrir ferðaþjónustuna. Við reynum að fresta því í lengstu lög að fella niður ferðir,“ segir Valur Jónatansson, vaktstjóri hjá Reykjavik Excursion. 

Valur segir veðrið hafa verið óvenju slæmt það sem af er ári með tíðum vegalokunum. Spurður um þjónustuna á vegunum segir Valur Vegagerðina hafa staðið sig vel í að reyna að halda vegum opnum í lengstu lög. „Við megum ekki gleyma því að við búum á Íslandi og það er vetur,” segir Valur. 

Rútur.
Rútur. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert