Forsetinn á ferð og flugi í Litháen

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ásamt Dalia Grybuskaité, forseta Litháens, …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ásamt Dalia Grybuskaité, forseta Litháens, á skrifstofu hennar í Vilníus. Ljósmynd/Facebook-síða forseta Íslands

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er staddur í Vilníus í Litháen, en í dag er akkúrat öld liðin frá því að Litháar lýstu yfir sjálfstæði.

„Í dag er þess minnst að öld er frá því að Litháar lýstu yfir sjálfstæði. Árin milli stríða komst hér á einræði og í seinni heimsstyrjöld glötuðu Litháar frelsinu en endurheimtu það við hrun Sovétríkjanna 1991,“ skrifar Guðni á Facebook síðu forseta Íslands.

Forsetinn tók þátt í hátíðarhöldum í Vilníus í tilefni dagsins og segir það vera mikinn heiður að fá að sækja þau. „Við Íslendingar eru í miklum metum í Litháen, lofaðir fyrir stuðning í sjálfstæðisbaráttunni undir lok síðustu aldar,“ skrifar Guðni.

Guðni hefur haft nóg fyrir stafni í heimsókn sinni í Litháen og hefur hann meðal annars flutt erindi um aðdraganda staðfestingar Íslands á sjálfstæði Litháens 1991 og stjórnmálasambands milli ríkjanna við Háskólann í Vilníus. Á myndskeiðinu hér fyrir neðan má horfa á erindi forsetans, sem hefst á mínútu 9:55.

Guðni heimsótti einnig forseta Litháens, Dalia Grybuskaité, og þá hann ræddi um kynjajafnrétti og jafnréttismál við stjórnendur og starfsfólk Jafnréttisstofnunar Evrópusambandsins, sem er staðsett í Vilníus.

Forsetinn er ánægður með heimsóknina og í tilefni dagsins sendir hann Litháum á Íslandi og um heim allan hamingjuóskir. „Og þakka um leið gestrisni þeirra og hlýhug hér í Vilníus,“ skrifar Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert