Herbergjum á lungnadeild lokað

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Eggert

Í eftirlitsheimsókn starfsmanna Vinnueftirlitsins á lungnadeild A6 í Landspítalanum að Fossvogi þann 29. janúar fundust meðal annars rakaskemmdir og megn fúkkalykt í vaktherbergi merktu 618 og lyfjaherbergi merkt 626. 

Fyrir vikið var öll vinna bönnuð í herbergjunum þar til búið er að gera þar úrbætur vegna þess að óttast var um heilbrigði starfsmanna.

Þetta kemur fram á vef Vinnueftirlitsins.

Veittur er frestur til 28. febrúar til að gera úrbætur á herbergjunum.

„Notkun á vaktherbergi merkt 618 og lyfjaherbergi merkt 626 er bönnuð þangað til búið er að finna upptök rakans og koma í veg fyrir hann og í framhaldinu gera við vegginn. Gera skal ráðstafanir til að mögulega óheilnæmt loft frá þessum rýmum berist ekki í önnur vinnurými eða í vistarverur sjúklinga,“ segir í fyrirmælum Vinnueftirlitsins.

Í lýsingu og mati á aðstæðum vegna rakaskemmda í lyfjaherberginu kemur fram að starfsmenn deildarinnar þurfi oft að fara í herbergið og hafa margir sem hafa vinnuaðstöðu hinum megin við vegginn fundið fúkkalykt reglulega síðan í nóvember í fyrra og upplifað óþægindi í kjölfar þess.

Í fyrirmælum Vinnueftirlitsins skal starfsmönnum á lungnadeild A6 boðið að fara í heilsufarsskoðun með tilliti til áhrifa frá myglusveppi.

Senda skal Vinnueftirlitinu yfirlit yfir þær aðgerðir sem búið er að framkvæma og þær sem áætlaðar eru í sambandi við rakaskemmdirnar í lyfjaherberginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert