Ekkert meira en sæmilegur stormur

Frá Mývatni.
Frá Mývatni. Ljósmynd/Birkir Fanndal

„Hann er búinn að rjúka upp síðustu klukkustundina hjá okkur,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri í Skútustaðahreppi. Óveður sem gekk yfir suðvesturhluta landsins í morgun hefur haldið för sinni áfram og er mesti vindurinn núna á Norðaustur- og Austurlandi.

Þorsteinn segir að þrátt fyrir að eitthvað hafi farið að blása síðustu klukkustundina sé staðan ekki slæm við Mývatn. „Við höfum oft séð það verra hérna í Mývatnssveit,“ segir Þorsteinn.

„Við höfum ekki fengið neinar tilkynningar og ég veit ekki til þess að það hafi orðið nein útköll út af veðri hérna. Þetta er sæmilegur stormur hjá okkur í Mývatnssveit, ekkert meira en það,“ segir Þorsteinn en vindhraði fór í 24 m/s í hviðum við Mývatn.

Ekki hafa allir sloppið jafn vel undan veðurofsanum og fólk í Mývatnssveit. Vindhraði mældist rúmlega 50 m/s á sekúndu undir Hafnarfjalli í morgun og þá var tilkynnt um fjölda vatnsleka á höfuðborgarsvæðinu.

Fárviðri varð á Reykjum í Hrútafirði í hádeginu þar sem vindhraði mældist 33 m/s. Á sömu slóðum fór vindur í hviðum upp í 43 m/s. Aðra sögu er að segja af Siglufirði þar sem hitastig er rétt tæpar tíu gráður og þar er nánast logn.

Spár gera ráð fyrir 18-25 m/s á Austurlandi í kvöld með mikilli rigningu á suðausturhluta landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert