„Lægðin afhjúpar þá eðli sitt...“

Gervitunglamyndin sem Trausti Jónsson veðurfræðingur rýnir í í bloggfærslu sinni. …
Gervitunglamyndin sem Trausti Jónsson veðurfræðingur rýnir í í bloggfærslu sinni. Hún var tekin rétt fyrir 21 í gærkvöldi.

Trausti Jónsson veðurfræðingur rýndi í lægðina sem gengur yfir landið í dag á bloggi sínu í gær. Á gervihnattamynd sem hann skoðaði og birtir á bloggsíðu sinni sá hann fyrirbrigði sem kallast „hlýtt færiband“ sem flytur hlýtt og rakt loft úr suðri og norður á bóginn.

Myndin sem Trausti fjallar um var tekin í gærkvöldi og sýnir hún skýjakerfi mjög vaxandi lægðar suðvestur í hafi. „Það sem við sjáum er mikill hvítur skýjabakki – göndull nánast beint úr suðri. Þetta eru háreist ský sem leggjast upp undir veðrahvörfin – þetta fyrirbrigði er gjarnan kallað hlýtt færiband – flytur hlýtt og rakt loft úr suðri norður á bóginn en jafnframt upp – og svo í hæðarsveig til austurs.“

Og fleira les Trausti út úr myndinni:

 „Þar virðist líka vera að myndast það fyrirbrigði sem kallað er „þurra rifan“ – og fylgir lægðum í áköfum vexti. – Kalt loft vestan við lægðina dreifir úr sér til norðurs og suðurs og dregur þá niður veðrahvörfin – við niðurstreymi þeirra losnar úr læðingi mikill snúningur sem skrúfar þurra loftið enn neðar og að lokum inn í lægðarmiðjuna og eykur mjög á afl hennar. 

Lægðin afhjúpar þá eðli sitt og miðja hennar kemur greinilega fram á myndum. Við bestu skilyrði gerist þetta allt á fáeinum klukkustundum – í fyrramálið verður lægðin fullþroska. 

Í þessu tilviki vill til að hún missir líklega af kaldasta loftinu og verður því ekki alveg jafn skæð og hún hefði getað orðið. Það loft er við Suður-Grænland. Við þökkum bara fyrir það. Við fáum að vísu þetta loft yfir okkur síðar – aðra nótt og á fimmtudag – en hálfgert brotajárn ekki líklegt til stórræða. 

Á föstudag er síðan enn eitt illviðri væntanlegt – það er nú í bígerð yfir vötnunum miklu á landamærum Kanada og Bandaríkjanna – og á enn möguleika á að verða verra og langvinnara heldur en það sem við höfum verið að fjalla um hér.“

Bloggfærsla Trausta Jónssonar í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert