Sýknaður af ákæru um líkamsárás

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag mann af ákæru um líkamsárás. Manninum var gefið að sök að hafa á vormánuðum 2015 ráðist á annan mann, slegið hann ítrekað í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut brot í augnbotnabeinum, lausan beinbita innan kúpu við hægri augnumgjörð og sprungu auk þess sem gervitannagómur í efri góm brotnaði.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá laugardeginum 2. apríl 2015 fékk lögreglan boð um að fara að Hlemmi þar sem brotaþoli væri með áverka eftir líkamsárás, en sjúkrabifreið var á leiðinni.

Brotaþoli hélt því fram að hinn ákærði, sem er nágranni hans, hefði komið í heimsókn í íbúð hans þar sem hann sat við bjórdrykkju með vinkonu sinni. Ákærði hefði dvalið í íbúðinni í um 20-30 mínútur en þá orðið mjög æstur og hótað að lemja vinkonu brotaþola, sem hafi gengið á milli og því orðið fyrir höggum ákærða.

Framburður hins ákærða og vitnisins, vinkonunnar, var nokkuð ónákvæmur og segir í dómi héraðsdóms að brotaþoli beri einn um þá árás sem greint er frá í ákærunni. Þótti dómnum ósannað að ákærði hefði valdið brotaþola áverkunum og var hann því sýknaður.

Sakarkostnaður, 832.660 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert