Von á svipaðri lægð á föstudag

Mikil úrkoma hefur verið á landinu öllu í dag.
Mikil úrkoma hefur verið á landinu öllu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn eimir eftir austanlands af stormi sem gengið hefur yfir landið í dag. Mikil rigning er suðaustanlands og upp á sunnanverða firði og gaf Veðurstofan út viðvörun vegna þess um klukkan hálfsjö í kvöld.

Í samtali við mbl.is segir veðurfræðingur auknar líkur á skriðum og ofanflóðum austanlands. „Það eru að jafnaði mjög litlar líkur á skriðum og þær eru enn ekki miklar, þó svo þær hafi aukist lítillega.“ Búist er við að veðrinu austanlands sloti um hádegi á morgun og er veðrakerfi dagsins þá úr sögunni.

Það er þó skammgóður vermir því von er á stormi víða um land eftir hádegi á föstudag, svipuðum þeim sem gekk yfir landið í dag. Að sögn veðurfræðings verður veðrakerfið ekki ólíkt því sem var í dag, nema þó að föstudagslægðin verður aðeins hlýrri og ekki alveg jafnhvöss. Búast má við að vindurinn nái allt að 20 metrum á sekúndu í Reykjavík á föstudagskvöld.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að vatn flæði yfir veg á þremur stöðum í sunnanverðum Fáskrúðsfirði og eru vegfaraendur beðnir að sýna aðgát og fara varlega.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert