Frakkarnir ætluðu að heimsækja vinabekk

Það er margt um manninn í fjöldahjálparmiðstöðinni.
Það er margt um manninn í fjöldahjálparmiðstöðinni. mbl.is/Eggert

Um tíu sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum, auk lækna og björgunarsveitarmanna frá Borgarnesi eru í fjöldahjálparmiðstöð sem komið hefur verið upp í Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi. 26 ungmenni frá Frakklandi fá þar aðhlynningu en þau voru farþegar í rútu sem valt á Borgarfjarðarbraut á fimmta tímanum.

Að sögn Kjartans Sigurjónssonar, formanns svæðisdeildar Rauða krossins í Borgarnesi, sem er í fjöldahjálparmiðstöðinni, eru börnin í góðu yfirlæti í menntaskólanum. Búið er að fara yfir þau, eitt og eitt. Einn var sendur á sjúkrahús, en ekki er vitað hve alvarleg meiðsli hans eru. Aðrir eru óhultir.

Börnin voru á leið til Þorlákshafnar þar sem til stóð að heimsækja vinabekk. Kjartan segir unnið að því að fá nýja rútu fyrir börnin, en að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort þau snúi til Reykjavíkur eða haldi ferðinni áfram. Þangað til gæða þau sér á pítsum.

mbl.is/Theodór Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert