Vilja ekki banna snjallsíma í grunnskólum

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að takmörkuð umræða um …
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að takmörkuð umræða um símanotkun hafi farið fram hér á landi. Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag lagði Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir borgarfulltrúi fram tillögu um að snjallsímar verði bannaðir í grunnskólum borgarinnar á skólatíma. Tillagan hlaut ekki brautargengi í borgarstjórn.  

Í greinargerð með tillögunni segir að þeim rannsóknum fjölgi stöðugt sem sýni fram á skaðleg áhrif snjallsíma á skólastarf, árangur og félagslega færni nemenda. 

„Vegna þessa hafa fjölmörg ríki nú ákveðið að banna alla símanotkun á fyrstu skólastigunum. Bretar voru á meðal hinna fyrstu og er símanotkun nemenda nú óheimili í langflestum barnaskólum þar. Þá hafa Frakkar nú ákveðið að banna símanotkun á fyrstu skólastigum, fram til 15 ára aldurs. Sömu sögu er að segja frá Norðurlöndunum þar sem stöðugt fjölgar þeim skólum sem banna nemendum að nota síma meðan þeir eru í skólanum.“

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.

Í greinargerðinni segir að hér á landi hafi afar takmörkuð umræða farið fram um símanotkun nemenda þrátt fyrir að rannsóknir staðfesti skaðleg áhrif slíkrar notkunar á skólastarf og árangur og félagslega færni nemenda.  

„Við þetta bætist síðan rannsóknir sem sýna fram á mjög mikla fylgni milli notkun nemenda á samfélagsmiðlun og aukins þunglyndis og kvíða og einangrunar þeirra á meðal. Er miður að borgaryfirvöld neiti að taka frumkvæði í þessu máli, fylgja erlendum fordæmum og láta augljósa hagsmuni barna ráða ferðinni.“

mbl.is