Ferðaþjónustan yfirtekur samfélagið

Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir, bóndi og fulltrúi í sveitarstjórn Bláskógabyggðar.
Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir, bóndi og fulltrúi í sveitarstjórn Bláskógabyggðar. Mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vaxandi gremju gætir meðal íbúa í Bláskógabyggð sem þykir ferðaþjónustan vera orðin svo umsvifamikil að hagsmunir fólksins sem sveitina byggir séu víkjandi. Mikið álag sé til dæmis á vegakerfið í uppsveitum Árnessýslu, sem sé að brotna undan þunga rútubíla. Þá sé umferð erlendra ferðamanna á litlum bílaleigubílum mikil og kraðaki líkust. Fleira er tiltekið sem allt eru rök fyrir því að kraftur verði settur í úrbætur í vegamálum á svæðinu. Þetta er kjarni þess sem fram kom í máli fulltrúa í sveitarstjórn Bláskógabyggðar í kynnisferð um sveitarfélagið síðastliðinn þriðjudag.

Vegakerfið er hrunið

„Ferðaþjónustan er í raun að yfirtaka samfélagið og íbúar þurfa í auknum mæli að aðlaga sig hegðun ferðamannanna,“ segir Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir, bóndi í Bræðratungu í Biskupstungum, sem er fulltrúi í sveitarstjórn Bláskógabyggðar.

„Ferðaþjónustan er stór atvinnugrein hér og heimamenn sem hana stunda eru til fyrirmyndar í sínum störfum. Hins vegar er sveitarfélagið okkar aðalmjólkurkýr stórra ferðaþjónustufyrirtækja í Reykjavík og mikill fjöldi fólks fer á þeirra vegum hér er um, oftast í dagsferðum svo lítið verður eftir hér í sveitarfélaginu nema að vegakerfið er hrunið.“

Hálfgerðar hornrekur

Innan landamæra Bláskógabyggðar eru nokkrir af fjölsóttustu ferðamannastöðum lands. Þar má nefna Þingvelli, Geysi og Gullfoss og stór hluti af þeim erlendu ferðamönnum sem til landsins koma leggur leið sína þangað.

„Það má ekki gleymast að hér er landbúnaður öflug atvinnugrein og við bændur erum að verða hálfgerð hornreka með búpening okkar. Lendum oft í vandræðum með að komast um okkar eigin jarðir. Margar jarðir í hér eru klofnar af stórum stofnvegum, til dæmis Biskupstungnabraut og Laugarvatnsvegi. Umræðan um öryggi á vegum hefur verið um ferðaþjónustuna og ekki gengur að bjóða erlendum gestum okkar upp á ónýtt vegakerfi,“ segir Guðrún Svanhvít í Bræðratungu. 

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.  

Ferðamenn við Gullfoss.
Ferðamenn við Gullfoss. Mbl.is/Ómar Óskarsson
Gjábakkavegur við Þingvelli er illa farinn af álagi. Endurbætur standa …
Gjábakkavegur við Þingvelli er illa farinn af álagi. Endurbætur standa fyrir dyrum. Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is