Íslenskt lag í Eurovision forkeppni Litháa

Sveinn og Valgeir eru nú staddir í Litháen.
Sveinn og Valgeir eru nú staddir í Litháen.

Í dag er dag fer fram undankeppni Eurovision í Litháen þar sem íslenskt lag er meðal þeirra laga sem keppa til úrslita. Þá mun Ari Ólafsson, sem vann undankeppnina á Íslandi, mæta í litháska ríkissjónvarpið og syngja framlag Íslendinga í Eurovision, Our Choise, í tilefni af þjóðhátíðardegi Litháa, sem er í dag, og sérstökum tengslum landanna tveggja.

Ísland skipar stóran sess í sjálfstæðisbaráttu Litháa þar sem Ísland var fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði þjóðarinnar á sínum tíma.

Þeir Valgeir Magnússon og Sveinn Rúnar Sigurðsson eru mættir til Litháen en, lag Sveins, 1 2 3 með Paulu Valentaite, keppir til úrslita um að komast í Eurovision fyrir Litháen.

„Þetta er ferlega spennandi. Við Svenni áttum eitt lag saman í þessari keppni en það datt út eftir þrjár umferðir (fjórar umferðir eru í undankeppninni í Litháen). Svo var Svenni með annað lag í keppninni og það er vinsælasta lagið hér núna. Hvar sem maður fer í verslanir er verið að spila lagið. Þetta er mikil stemning,“ segir Valgeir Magnússon, útgefandi lagsins, um veru þeirra þar.

„En við erum nú að aðstoða Gytis, meðhöfund Sveins, við að klára það sem þarf fyrir lokakvöldið en keppnin verður í borginni Kaunas, ekki langt frá Vilnius. Við höfum ekkert haft puttana í sviðsetningunni en ef lagið skyldi vinna þá keppni tökum við líklega það atriði yfir og þurfum að pæla hvernig það lítur út í Portúgal,“ segir Valgeir um lagið og keppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert