Frá sveitabæ í Sýrlandi á Flateyri

Fjölskyldan kom til Ísafjarðar í síðustu viku.
Fjölskyldan kom til Ísafjarðar í síðustu viku. mbl.is/Hallur

Eins og Vestfirðingar, og aðrir sem sækja þá heim, þekkja getur reynst þrautin þyngri að lenda flugvél á Ísafjarðarflugvelli. „Er vélin lent?“ Heyrist iðulegu yfir morgunkaffinu.

Blaðamaður mbl.is hitti 14 manna stórfjölskyldu á flugvellinum í Reykjavík. För okkar allra var heitið á Ísafjörð en öll eru þau hluti af þeim hópi sem kom til lands­ins sem flóttafólk á vegum ís­lenskra stjórn­valda á þessu ári.

„Er tungumálið erfitt?“

Fjölskyldan samanstendur af þeim Ibtisam og Ahmed, börnum þeirra sex, tveimur tengdabörnum og fjórum barnabörnum. 

Það vill svo til að blaðamaður talar arabísku sem er móðurmál fjölskyldunnar sem kemur frá Deraa í Sýrlandi. Eins og gengur og gerist kom upp vandamál með flugvélina og þá kom arabískukunnáttan sér vel og gat ég útskýrt fyrir fólkinu hvað væri í gangi og hver fyrirmæli áhafnar voru.

Hjónin ganga frá flugvélinni á leið til nýrra heimkynna.
Hjónin ganga frá flugvélinni á leið til nýrra heimkynna. mbl.is/Hallur

Fljótlega komst því á vinskapur með mér og Ibtisam, sem er móðir og amma hópsins. Svo fór að ég fylgdi henni að allt frá Reykjavíkurflugvelli að hinu nýja heimili stórfjölskyldunnar á Flateyri. 

„Er tungumálið erfitt? Er það mjög ólíkt ensku?“ Spyr ung dóttir þeirra hjóna mig forvitin. Öll eru þau áhugasöm að heyra svarið. „Það er stríð í landinu okkar,“ segir Ibtisam og spyr mig áhyggjufull hvort Íslendingar almennt viti um ástandið. Ég reyni að fullvissa hana um það að flestir hér séu meðvitaðir um neyð Sýrlendinga. 

Þegar kom að því að lenda á Ísafirði tilkynnti flugstjóri að það reyndist ekki mögulegt í augnablikinu og því þyrfti vélin að hringsóla um stund. Aftur kom arabískan að góðum notum og gat ég miðlað upplýsingum til fjölskyldunnar. 

Maisa litla er nýr íbúi á Flateyri.
Maisa litla er nýr íbúi á Flateyri. mbl.is/Hallur

Langt og strangt ferðalag

„Kemur þú ekki með mér?“ heyrist í Ibtisam á flugvellinum skömmu eftir lendingu en eflaust hefur henni þótt ákveðið öryggi í því að hafa nýju arabískumælandi vinkonu sína með sér, komin á alveg nýjar slóðir í annað sinn á stuttum tíma.

Daginn áður hafði fjölskyldan lent í Keflavík eftir langt og strangt ferðalag frá Jórdaníu þar sem þau höfðu dvalið í flóttamannabúðum í nokkur ár.

Á Ísafirði var vel tekið á móti fjölskyldunni þar sem þau voru boðin hjartanlega velkomin með kaffi og tilheyrandi af starfsfólki og sjálfboðaliðum í Vestra, Rauða kross húsinu á Ísafirði. Á leiðinni þangað röbbuðum við Ibtisam aðallega um arabíska matargerð, sem er sameiginlegt áhugamál okkar (þó að ég sé eflaust betri í að borða slíkan mat en elda hann).

Ahmed og tengdasonur við komuna á Ísafjörð.
Ahmed og tengdasonur við komuna á Ísafjörð. mbl.is/Hallur

Melónur, ólífur og granatepli

Hún ljómaði þegar hún sagði mér frá sveitabænum sem þau höfðu átt í Sýrlandi þar sem mátti finn ferskt grænmet og ávexti, eins og gengur og gerist í görðum í Mið-Austurlöndum. Melónur, tómatar, ólífur og granatepli eru á meðal þess sem þau gátu nálgast í bakgarðinum hjá sér.

Ég get ekki annað en leitt hugann að því hversu mikil viðbrigði það séu fyrir fólk að vera komið alla leið til Flateyrar frá sveitabæ í Sýrlandi, sem í mínum eyrum hljómar eins og lítil paradís. Ekki að eigin frumkvæði heldur tilneydd og í burtu frá fjölskyldu, vinum og öllu sem þú þekkir.

Feimin og forvitin ganga þau um nýju heimkynnin og virða þau fyrir sér. „Er wifi hérna,“ spyr einn unglingurinn í hópnum eftir stutta skoðun á nýjum híbýlum. Ég gat ekki annað en brosað, líklega væri þetta mín fyrsta spurning líka.  

Bæjarstæðið á Flateyri er einstaklega fallegt.
Bæjarstæðið á Flateyri er einstaklega fallegt. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert