Aldrei fleiri tilkynningar til barnaverndar

Stuðlar er meðferðarstöð fyrir unglinga sem rekin er af Barnaverndarstofu.
Stuðlar er meðferðarstöð fyrir unglinga sem rekin er af Barnaverndarstofu. mbl.is/Hari

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 7% á árinu 2017 miðað við árið á undan. Hins vegar er fjölgunin 16,8% ef miðað er við árið 2015. Fjöldi tilkynninga á árinu 2017 var 9.969 tilkynningar, en 9.318 árið á undan. Ekki hafa áður borist fleiri tilkynningar til barnaverndarnefnda, áður voru flestar tilkynningar á árinu 2009 en þá bárust 9.353 sem er svipaður fjöldi og á árinu 2016.

Tilkynningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 7,1%, en á landsbyggðinni fjölgaði tilkynningum um 6,7% á árinu 2017 ef miðað er við árið á undan. Þess ber að geta að tilkynning til barnaverndarnefndar verður að barnaverndarmáli ef tekin er ákvörðun um könnun máls í kjölfar tilkynningarinnar, segir í skýrslu á vef Barnaverndarstofu.

Líkt og árin á undan þá voru flestar tilkynningar á árinu 2017 vegna vanrækslu eða 38,4% tilkynninga og hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis var 27,7%. Þessi hlutföll lækka lítillega miðað við árið á undan. Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 32,9% á árinu 2017 og hækkar miðað við árið á undan. Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu hefur hækkað úr 0,6% í 1,0% á tímabilinu. Eins og árin á undan þá bárust flestar tilkynningar frá lögreglu, eða 42,8% tilkynninga á árinu 2017.

Umsóknum um meðferðarúrræði fækkar á milli ára

Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fækkaði á árinu 2017 úr 155 umsóknum í 154 umsóknir. Umsóknir voru 145 á árinu 2015. Umsóknir um Stuðla voru 36 á árinu 2017 og fækkaði um tvær umsóknir miðað við árið á undan. Umsóknir um önnur meðferðarheimili (Laugaland, Lækjarbakka og Háholt) voru 26 bæði árin 2016 og 2017. Umsóknum um MST fjölgaði úr 91 umsókn í 92 umsóknir á árinu 2017 miðað við árið á undan.

Fjölkerfameðferð (MST) snýr að fjölskyldum unglinga með fjölþættan hegðunarvanda sem kominn er á það alvarlegt stig að vistun unglings utan heimilis er talin koma til greina.

Markhópurinn eru unglingar á aldrinum 12-18 ára og fer meðferðin fram á heimilum fólks. Frá því í febrúar 2015 hefur þjónusta MST náð til alls landsins, en áður var þjónustusvæðið miðað við 60 min. akstursfjarlægð frá Reykjavík. Fleiri umsóknir um meðferð bárust fyrir drengi en stúlkur öll árin.

Beiðnum um tímabundið fóstur fjölgar á milli ára

Beiðnum til Barnaverndarstofu um fósturheimili fjölgaði úr 149 beiðnum á árinu 2016 í 171 beiðni á árinu 2017. Beiðnir um fósturheimili voru 140 á árinu 2015. Beiðnum um tímabundið fóstur fjölgaði en beiðnum um varanlegt fóstur og styrkt fóstur fækkaði miðað við árið á undan. Beiðnum frá Reykjavík og landsbyggðinni fjölgaði mest, en beiðnum frá nágrenni Reykjavíkur fækkaði um eina miðað við árið á undan.

Rannsóknarviðtöl í Barnahúsi skiptast í skýrslutökur fyrir dómi annars vegar og könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir hins vegar. Rannsóknarviðtölum alls fækkaði úr 235 á árinu 2016 í 233 á  árinu 2017, en þau voru 241 á árinu 2015. Skýrslutökur fyrir dómi voru 117 á árinu 2017, en 116  árið á undan og 127 á árinu 2015. Skýrslutökum vegna kynferðislegs ofbeldis fækkaði á árinu 2016 miðað við árið á undan úr 77 í 60, en þeim fjölgaði á ný á árinu 2017 í 70.

Frá því í mars 2015 hefur Barnahús einnig sinnt skýrslutökum og meðferð barna sem hafa upplifað líkamlegt ofbeldi og/eða heimilisofbeldi. Könnunarviðtölum fyrir barnaverndarnefndir fjölgaði úr 114 á árinu 2015 í 119 á árinu 2016, en fækkaði á árinu 2017 í 116 könnunarviðtöl.

Þar af voru á árinu 2017 könnunarviðtöl við 20 hælisleitandi börn, þarf af 13 sem voru fylgdarlaus. Fjöldi barna sem fór í greiningar- og meðferðarviðtöl á árinu 2017 var 134 börn sem er sami fjöldi og árið á undan. Stúlkur voru í meirihluta þeirra barna sem komu í rannsóknarviðtöl öll árin.

Færri vistaðir á lokaðri deild á Stuðlum

Vistunum á lokaðri deild á Stuðla fækkaði úr 227 í 211 á árinu 2017 miðað við árið á undan. Vistanir voru 176 á árinu 2015. Vistunardögum á grundvelli 25. gr. eða 31. gr. barnaverndarlaga fjölgaði úr 1.329 dögum á árinu 2016 í 1.349 daga á árinu 2017. Vistunardagar á árinu 2015 voru 1.084. Alls komu 86 börn á lokaða deild Stuðla á árinu 2017, en 99 börn komu árið á undan, en þau voru 84 á árinu 2015.

Umsóknum um leyfi til að gerast fósturforeldrar fækkaði úr 76 í 60 á árinu 2017 miðað við árið á undan, en umsóknir voru 59 á árinu 2015.

Hér er hægt að lesa skýrsluna í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert