Sigur Rós búin að endurgreiða peninginn

Sigur Rós á tónleikunum Norður og niður.
Sigur Rós á tónleikunum Norður og niður. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er rosalega leiðinlegt og gríðarlega kostnaðarsamt fyrir okkur,“ segir Georg Holm, bassaleikari Sigur Rósar, um kyrrsetningu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að kröfu tollstjóra á eignum meðlima hljómsveitarinnar.

Um er að ræða kyrrsetningu upp á tæplega 800 milljónir króna sem nær til allra þriggja meðlima sveitarinnar, Georgs, Jóns Þórs Birgissonar og Orra Páls Dýrasonar, að því er kom fram í Fréttablaðinu í morgun. 

Höfðu fullt traust á endurskoðandanum

Að sögn Georgs var hljómsveitin með endurskoðanda hjá PricewaterhouseCoopers sem stofnaði sitt eigið fyrirtæki og ákvað hljómsveitin að elta endurskoðandann þangað.

„Við áttum gott samstarf við hann, að við héldum,“ segir Georg. „Maður borgar fólki fyrir að gera „djobbið“ sitt sem það hefur lært. Við höfðum fullt traust á honum en svo var það bara ekki málið. Hann hafði ekki skilað inn réttum gögnum og ekki á réttum tímum. Þetta var allt eintómt klúður sem við höfðum enga vitneskju um fyrr en okkur var tilkynnt það.“

Um er að ræða íslenskan endurskoðanda sveitarinnar en Sigur Rós er einnig með endurskoðendur í Bretlandi og í Bandaríkjunum. „Við höfum aldrei lent í neinu veseni með neitt svona áður.“

Hljómsveitin er þegar búin að endurgreiða upphæðina sem upp á vantaði, auk vaxta, að sögn Georgs.

„Enginn brotavilji“

Aðspurður segir hann að þeir félagar í hljómsveitinni hafi verið bæði í sjokki og reiðir þegar þeir fréttu af málinu. Hann greinir frá því að mikil vinna hafi farið í að laga það sem aflaga fór í samvinnu við yfirvöld og nýja endurskoðendur. „Það er búið að ganga frá þessu öllu. Við erum búnir að borga allt sem var rangt og vexti af því. Það er allt upp á borðum hjá okkur og það var enginn brotavilji.“

Hann veit ekki hversu há upphæðin er sem hljómsveitin er búin að endurgreiða en nefnir að erlendir endurskoðendur sveitarinnar hafi einnig tekið þátt í að lagfæra það sem þurfti að laga.

Spurður hvort dómsmál sé fyrirhugað gegn hljómsveitinni vegna þessa máls kvaðst hann ekkert vita um það.

Athugasemd frá PricewaterhouseCoopers:

Athugasemd hefur borist frá PricewaterhouseCoopers vegna fréttarinnar. Fyrirtækið vill að fram komi að endurskoðandinn sem annaðist aðstoð fyrir Sigur Rós hafi hætt hjá PricewaterhouseCoopers árið 2012 og stofnað þá sitt eigið fyrirtæki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert