Ekki sekir um að hafa velt bíl á hliðina

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað tvo menn sem voru ákærðir fyrir hafa mánudagskvöldið 27. júní 2016 „af gáska og á ófyrirleitinn hátt“ stofnað lífi og heilsu manns og konu í hættu með því að hafa velt bifreið á vinstri hlið er hún stóð kyrrstæð fyrir utan Kaffi Selfoss við Eyrarveg á Selfossi, þrátt fyrr að hafa vitað af þeim tveimur inni í bifreiðinni.

Annar hinna ákærðu sagði frá því við aðalmeðferð að hann hafi verið ásamt meðákærða á knattspyrnulandsleik og kvöldið hafi verið mjög skemmtileg. Þegar þeir hafi séð umrædda bifreið fyrir framan Hótel Selfoss þá hafi annar maður stokkið á bifreiðina, farið að taka á henni og kallað á þá.

Þeir hafi farið til hans og farið að taka á bifreiðinni með honum, en maðurinn hafði sagt að systir hans væri inni í bifreiðinni. Um hafi verið að ræða grín sem hafi beinst að henni.

Þegar maðurinn var farinn að skynja að bifreiðin myndi velta á hliðina reyndu þeir að toga hana til baka en það var orðið of seint, enda hafi sex til sjö manns átt þátt í að velta bifreiðinni.

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að ósannað sé, gegn neitun ákærðu, að þeir hafi haft þann ásetning að velta bifreiðinni á hliðina og jafnframt að þeir hafi átt þátt í því að að hún valt á hliðina.

Einnig er með öllu ósannað að ákærðu hafi haft ásetning til að stofna lífi og heilsu mannsins og konunnar í hættu.

Notast var við mynddisk í réttarhöldunum. Fram kemur í niðurstöðu dómara að hann sýni aðeins hluta af atburðarrásinni. Hann hnekki ekki framburði ákærðu en upptökunni lauk áður en bifreiðin valt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert