Námutrukkar á ferð um Vestfjarðagöng

Vestfjarðagöng verða lokuð tímabundið í þrjú skipti í kvöld og …
Vestfjarðagöng verða lokuð tímabundið í þrjú skipti í kvöld og nótt vegna flutninga trukkanna.

Þrír námutrukkar sem notaðir verða við gerð Dýrafjarðarganga verða fluttir frá Ísafirði um Vestfjarðagöng og á áfangastað í Dýrafirði í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum verða göngin af þessum sökum lokuð í einhvern tíma vegna flutninganna.

Mun einn trukkur verða fluttur í einu og verða göngin lokuð þegar trukkarnir fara þar í gegn. Segir lögreglan að búast megi við því að lokunin geti varað í nokkra stund í hvert skipti, enda um að ræða stór tæki og lítið svigrúm í göngunum sem kallar á flutningshraða í samræmi við það.

Fyrsta lokunin verður um klukkan níu í kvöld, en ekki er hægt að tímasetja seinni tvær lokanirnar nákvæmlega. Segir lögreglan að reynt verði að tryggja að lokunum verði lokið fyrir fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert