Myndavélin er mitt vegabréf

Christina hefur unnið að heimildaljósmyndun víða um heim og unnið …
Christina hefur unnið að heimildaljósmyndun víða um heim og unnið til verðlauna á alþjóðavettvangi.

Í Melbourne í Ástralíu býr hinn hálf íslenski ljósmyndari sem nýlega komst á virtan tíu manna stuttlista í „Discovery“ flokki atvinnuljósmyndara hjá Sony World Photography, en úrslit verða gerð kunn í apríl. Í fyrra lenti hún í öðru sæti í sömu keppni í flokknum Daglegt líf og var það í fyrsta sinn sem Íslendingur komst þar á lista. Það er því heldur betur afrek að komast þar á blað tvö ár í röð.

Serían „Resiliant“ (Þrautseigja) fjallar um konur frá Hondúras sem flúið …
Serían „Resiliant“ (Þrautseigja) fjallar um konur frá Hondúras sem flúið hafa til Bandaríkjanna frá eymd og borgarstríðum. Mörgum hefur verið vísað aftur heim og til þess að lifa af hafa konur þurft að ganga til liðs við gengi. Serían er tilnefnd til verðlauna í ár hjá Sony.
Juan er 21 árs og bjó hann á götunni með …
Juan er 21 árs og bjó hann á götunni með móður sinni þar til hún lést þegar hann var sex ára. Hann var tekinn inn í Mara-gengið þar sem hann var gerður að njósnara. Hann tók eiturlyf og stundaði sjálfsskaða en líkami hans er alsettur brunablettum eftir sígarettu. Ljósmynd/Christina Simons

Íslensk í hjarta mínu

Finnst þér þú vera íslensk?

„Ég spyr mig frekar að því hvar ég eigi heima, hvar ég tilheyri. Í hvaða box passa ég? Þetta er dálítið erfið spurning því mér finnst ég alls staðar vera dálítið utanveltu,“ segir Christina. „Fyrir utan þá staðreynd að vegabréf mitt er íslenskt, þá finnst mér í hjarta mínu ég vera íslensk. En þegar ég er á Íslandi finnst mér ég ekki vera jafn íslensk og allir aðrir. Ég gekk ekki menntaveginn hér og íslenskan mín þróaðist ekki áfram eftir að barnæskunni lauk,“ segir Christina en við höfðum sammælst um að viðtalið færi fram á ensku.

„En mér finnst ég hafa alist hér upp og það skiptir mig máli og hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag,“ segir hún.

„Mér finnst ég alls ekki vera bandarísk og ég er heldur ekki áströlsk þannig að það má segja að íslensku ræturnar séu sterkastar,“ segir hún og segist eiga yndislegar æskuminningar frá Íslandi.

Gömul saga og ný

Með Læknum án landamæra vann Christina í Mið Ameríku en fjöldi fólks hefur í raun verið þar á flótta í tuttugu ár, á þeirri löngu og hættulegri vegferð í gegnum Mið Ameríku og Mexíkó til fyrirheitna landsins, Bandaríkjanna.

„Þetta er orðin gömul saga en í ljósi núverandi stjórnmálaástands hefur ástandið versnað vegna fjöldabrottvísana frá Bandaríkjunum,“ segir Christina og segir að í löndum Mið Ameríku séu fá tækifæri til þess að afla sér tekna.

„Á flóttanum lendir fólk í ýmsum aðstæðum; ofþornun, menguðu vatni og matvælum, sólbruna og sjúkdómum. Svo ekki sé minnst á að eiga á hættu að lenda í ofbeldi, nauðgun, þjófnuðum, mannráni eða hreinlega að verða myrt,“ segir Christina.

„Það hafði djúpstæð áhrif á mig að sjá hundruði manna fara þarna í gegnum flóttamannamiðstöðvarnar. Þetta var fólk aðallega frá Hondúras og El Salvador. Allir að reyna að flýja ofbeldi og hrylling sem þau höfðu lifað við í sínum heimalöndum. Ég velti fyrir mér spurningunni hvers vegna þetta fólk tók þá áhættu að fara yfir Mexíkó. Svarið er klárlega að það var verr sett að sitja heima.“

Í Hondúras myndaði Christina mæður í fangelsi sem áttu lítil …
Í Hondúras myndaði Christina mæður í fangelsi sem áttu lítil börn. Serían birtist í The Guardian. Ljósmynd/Christina Simons

Giftu sig við Silfru

Christina endaði sem fyrr segir í Ástralíu, en maðurinn hennar, William Pritchard, er þaðan. „Ég giftist ótrúlega skilningsríkum og ævintýragjörnum Ástrala og við búum hér í Melbourne ásamt syni okkar Indigo George Simons Pritchard,“ segir hún og nefnir að sonurinn sé kallaður Indi, sem minni á íslenska orðið yndi.

„Árið 2009 giftum við okkur umkringd fjölskyldu og tuttugu áströlskum vinum við Silfru á Þingvöllum. Alsherjargoðinn Hilmar Örn Hilmarsson gaf okkur saman og við vorum svo heppin að Steindór Anderson sá um tónlistina. Við ætluðum að hafa veisluna í Hótel Valhöll, en því miður brann það nokkrum vikum fyrir brúðkaupið. Sem betur fer var hægt að hafa veisluna úti í Viðey,“ segir hún.

Rödd þeirra sem minna mega sín

Christina segir það mikinn heiður fyrir sig að lenda á fyrrnefndum stuttlista hjá Sony World Photography, og hvað þá tvisvar.

„Ástríða mín liggur í heimildaljósmyndun sem viðkemur mannúðarmálum. Mér er mjög umhugað um þessar sögur mínar og með þessari viðurkenningu vonast ég til að þessi hjartans mál mín fái breiðari áhorfandahóp,“ segir hún.

„Á Íslandi fékk ég að upplifa að frelsi og öryggi væri sjálfsagður hlutur. Ég vil berjast fyrir fólk sem ekki hefur þessi almennu mannréttindi og hefur ekki sjálft rödd til þess að berjast.“

Christina stendur hér við mynd á sýningu úr seríu sem …
Christina stendur hér við mynd á sýningu úr seríu sem heitir Little Bullfighters, eða litlir nautabanar. Fjallar hún um kornunga drengi í Mexíkó sem þjálfaðir eru til þess að verða nautabanar.

Viðtalið í heild sinni er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »