Fagna úrskurði um Lyklafellslínu

Hamraneslínur flytja rafmagn til álversins í Straumsvík. Mynd úr safni.
Hamraneslínur flytja rafmagn til álversins í Straumsvík. Mynd úr safni. mbl.is/​Hari

Formenn Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands og Hraunavina fagna því að framkvæmdaleyfi Landsnets til lagningar Lyklafellslínu 1 hafi verið fellt úr gildi, enda hafi veiting framkvæmdaleyfisins bæði verið mikil ógn við vatnsból höfuðborgarbúa og auk þess byggð á umhverfismati frá árinu 2009 sem hafi áður verið talið ófullnægjandi af Hæstarétti.

Náttúruverndarsamtökin tvö kærðu veitingu Hafnarfjarðarbæjar á framkvæmdaleyfinu. Í gær féll úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála svo félögunum í hag, framkvæmdaleyfið hefur verið fellt úr gildi og úrskurðarnefndin mælist til þess að jarðstrengjalausnir verði kannaðar betur.

Ragnhildur Jónsdóttir formaður Hraunavina segir að henni þyki leiðinlegt ef að uppbygging í Skarðshlíðarhverfi tefjist vegna þessa, en bendir þó að það að setja loftlínu yfir grannsvæði vatnsbólanna hafi eiginlega verið „versta hugsanlega leið“ sem hægt væri að fara í stöðunni.

„Okkur vantar íbúðir og leikskóla og allt það, en ef við höfum ekki hreint drykkjarvatn þá höfum við akkúrat ekki neitt,“ segir Ragnhildur og bendir á að þarna sé um að ræða vatnsból höfuðborgarsvæðisins sem þjóni um tveimur þriðju hlutum þjóðarinnar.

Eydís Franzdóttir formaður Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands tekur í sama streng, fagnar úrskurðinum og því að nú sé hægt að skoða aðra möguleika við tilfærslu Hamraneslína 1 og 2, sem liggja samsíða á milli tengivirkjanna í Hamranesi og Geithálsi.

„Auðvitað má öllum vera ljóst að það þarf að færa Hamraneslínu frá byggðinni. Réttara sagt, það er búið að skipuleggja byggð ofan í háspennulínu sem er algjör óvissa um hvert er að fara. Það auðvitað gengur ekki. Mér finnst að Hafnarfjarðarbær hafi gengið of hratt í skipulagningu á þessu svæði miðað við framgang mála hjá Landsneti, en hins vegar getur enginn búið undir þessum línum. Við erum öll sammála um það, en það eru bara aðrir möguleika til tilfærslu á Hamraneslínu sem hafa ekki verið skoðaðir.“

Baráttan fyrir því að stöðva þessa línulögn hefur verið löng, að sögn Ragnhildar. „Við erum búin að fara á ótal fundi, bæði opna og lokaða í nánast öllum bæjarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Svo sendum við athugasemdir og svo enduðum við á að senda kærur út um allt. Það hlustaði enginn fyrr.“

Óskoðaðir möguleikar ef til vill fýsilegri

Þær Eydís og Ragnhildur tala báðar um þann möguleika að leyfa Hamraneslínu að standa í núverandi mynd að nokkru leyti, en leggja jarðstrengi í jörð á því svæði sem skipulagt hefur verið af Hafnarfjarðabæ undir íbúabyggðina í Skarðshlíðarhverfi. Einnig benda þær á að hægt væri að leggja nær alla Hamraneslínuna í jörð, auk þess sem mögulegt væri að færa línuna út fyrir hið Skarðshlíðarhverfi sem loftlínu, eða leggja hana í vegaslóða á þeim slóðum.

Þessi skýringarmynd sýnir hvernig Hamraneslínur fara í gegn um uppbyggingarsvæðið …
Þessi skýringarmynd sýnir hvernig Hamraneslínur fara í gegn um uppbyggingarsvæðið í Skarðshlíð og aðra möguleika sem þær Ragnhildur og Eydís hafa talað fyrir. Skýringarmynd/Aðsend

Þessa möguleika segir Eydís enn ekki hafa verið tekna til skoðunar. Þeir myndu þó uppfylla allar forsendur framkvæmdarinnar. „Þetta væru lausnir sem eru utan vatnsverndarsvæðanna, ódýrari og ef til vill fljótlegri í framkvæmd,“ segir Eydís.

Ættum ekki að vera tilbúin að taka áhættu með vatnið

Ragnhildur og Eydís hafa staðið í þessari baráttu vegna þess að þær hafa áhyggjur af þeirri auðlind sem drykkjarvatnið á höfuðborgarsvæðinu er.

„Við erum með myndir af því hvernig straumarnir renna undir mjög þunnu gljúpu hrauni, þar sem að þú getur ímyndað þér þessa stóru trukka með 400 lítra olíutönkum bara nokkrum metrum fyrir ofan vatnið sem við eigum að drekka. Þetta er meiri áhætta en verið er að láta út fyrir,“ segir Ragnhildur.

Eydís vísar til þeirrar mengunar sem kom upp í vatnsbólum Reykjavíkurborgar í kjölfar leysinga janúar, er yfirborðsgerlar komust í neysluvatn og íbúum nokkurra hverfa var bent á að sjóða drykkjarvatn til neyslu. Sú uppákoma hafi sýnt hversu mikilvægt hreint vatn er. Íslendingar eigi ekki taka áhættu á því að þurfa að hugsa sig tvisvar um að drekka vatnið úr krönunum heima hjá sér.

Hamraneslínur eru sjávarmegin við vatnból höfuðborgarsvæðisins, en Lyklafellslína 1 (áður …
Hamraneslínur eru sjávarmegin við vatnból höfuðborgarsvæðisins, en Lyklafellslína 1 (áður Sandskeiðslína 1) er ofan þeirra. Skýringarmynd/Vatnaskil

„Þú sýður ekki olíumengun úr vatnsbólum. Þá þarf bara að loka, þá er bara vatnslaust. Hættan er gríðarleg,“ segir Eydís.

Hún segir Hamraneslínu vera þann kost sem skapi minnsta áhættu fyrir vatnsból höfuðborgarinnar, þar sem hún liggi „sjávarmegin“ við vatnsból borgarbúa - grunnvatnsstraumar þaðan liggi til sjávar sem þýði að mengunarslys hafi ekki þau áhrif að stór hluti vatnsverndarsvæðisins verði fyrir áhrifum.

Ragnhildur segir vernd vatnsverndarsvæðana vera mjög alvarlegt mál og fjalli ekki um hvort einhverjir ákveðnir pólitískir flokkar vinni á móti „lopapeysuliðinu úti í hrauni“.

„Þetta fjallar ekki um það, heldur vatn til framtíðar fyrir höfuðborgarbúa og þar með meirihluta þjóðarinnar,“ segir Ragnhildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert