Fari yfir umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis

Eiríkur Jónsson er formaður nefndarinnar.
Eiríkur Jónsson er formaður nefndarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Forsætisráðherra hefur skipað nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Eiríkur Jónsson prófessor er formaður nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að nefndin skili af sér tillögum í haust og svo aftur í mars 2019. 

Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að verkefni nefndarinnar verði eftirfarandi:

  1. Fara yfir fyrirliggjandi lagafrumvörp, sem stýrihópur, í kjölfar þingsályktunar nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, skilaði af sér eða hlutaðist til um að yrðu samin. Þessi frumvörp varða m.a. ærumeiðingar, hatursáróður, gagnageymd og ábyrgð hýsingaraðila.

  2. Taka til skoðunar fyrirliggjandi tillögur er lúta að tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna og eftir atvikum skyldu þeirra til að greina frá lögbrotum eða brotum á siðareglum sem þeir verða áskynja um starfi. 

  3. Fara yfir gildandi upplýsingalög í ljósi þróunar á alþjóðavettvangi og framkvæmdar laganna og meta hvort þörf sé á lagabreytingum. 

  4. Meta hverjar aðrar lagabreytingar kunni að vera æskilegar á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Undir þennan lið falla til dæmis heimildir til að beita fyrirfarandi tálmunum við tjáningu svo sem í formi lögbanns.

Þá kemur fram, að gert sé ráð fyrir að nefndin skili af sér fullbúnum frumvörpum eða eftir atvikum öðrum undirbúningsskjölum lagasetningar. Vinnan verður áfangaskipt þannig að nefndinni er ætlað að skila af sér tillögum varðandi 1. og 2. lið fyrir 1. október næstkomandi og 3. og 4. lið fyrir 1. mars 2019.

Nefndina skipa:

Eiríkur Jónsson prófessor, formaður
Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, varaformaður
Birgitta Jónsdóttir, stjórnarformaður International Modern Media Initiative (IMMI)
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands
Sigríður Rut Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður
Elísabet Gísladóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu
Þröstur Freyr Gylfason, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu
Elísabet Pétursdóttir, lögfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert