Lítur einfaldlega hræðilega út

Eldurinn er í byggingu sem hýsir Icewear og Geymslur.is.
Eldurinn er í byggingu sem hýsir Icewear og Geymslur.is. mbl.is/Ásdís

Eldurinn, sem logar í húsinu að Miðhrauni 4 í Garðabæ, virðist enn sem komið er eingöngu loga í þeim hluta hússins sem hýsir starfsemi Icewear. Þetta segir Ómar Jóhannsson, framkvæmdastjóri geymslufyrirtækisins Geymslur.ehf sem einnig er með starfsemi í húsinu, en hann er á staðnum.

„Hér er reykur út um allt og erfitt að átta sig á því sem er að gerast. En mér skilst af slökkviliðsmönnum að eldurinn hafi ekki borist yfir í okkar húsnæði,“ segir Ómar.

Að sögn Ómars liggur rými Geymslna.ehf að þeim hluta hússins þar sem Icewear er með starfsemi sína og að auki sé Marel þar með starfsemi. Spurður um hvort hann hafi verið beðinn um að rýma húsnæði sitt af eldsmat eða öðru slíku segir hann svo ekki vera. „Það fer enginn inn í húsið eins og er. Reykkafarar eru ekki einu sinni farnir inn.“

Spurður um hvað blasi við honum á vettvangi segir Ómar: „Þetta lítur einfaldlega hræðilega út. En það er ekki hægt að gera neitt annað en að leyfa mönnum að vinna sína vinnu og við vonum að allt fari vel. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert