Búið að slökkva í glæðum

Frá Miðhrauni í morgun.
Frá Miðhrauni í morgun. mbl.is/RAX

Búið er að slökkva í glæðum í húsinu sem brann í Miðhrauni í Garðabæ og verður vettvangurinn afhentur lögreglu á næstunni.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir að næsta verkefni verði að meta af sérfróðum mönnum hvort lögreglunni sé óhætt að fara inn í húsið til að rannsaka vegsummerki.

Meta þarf hvar lögreglan má fara inn í húsið og þá hvenær. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu mun aðstoða við það mat.

Eftir að lögreglurannsókn lýkur fá eigendur hússins afhentan vettvanginn og þá hefst önnur atburðarás, að sögn Jóns Viðars.

„Númer eitt, tvö og þrjú er að fara inn í þetta verkefni þannig að enginn beri skaða af,“ segir hann og bætir við að menn hafi sem allra mest verið fyrir utan húsið við slökkvistarfið.

Að sögn Bjarna Kjartanssonar, sviðsstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, hafa slökkviliðsmenn vaktað húsið síðan snemma í nótt.

Lögreglan er þegar búin að girða svæðið af og verður það vaktað þannig að enginn sem ekki tengist rannsókninni komist að húsinu, enda er það illa brunnið og hættulegt fyrir almenning að koma þar nálægt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert