Logar enn í glæðum

Ljóst er að gríðarlegt tjón varð í eldsvoðanum.
Ljóst er að gríðarlegt tjón varð í eldsvoðanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn er unnið að því að slökkva í glæðum í húsinu sem kviknaði í í Miðhrauni í Garðabæ í gær. Þar hefur slökkvistarf nú verið í gangi í að verða sólarhring. Í nótt og í morgun hefur verið haldið áfram að rífa húsið með krabbakló sem tekin var á leigu í gær. Það er gert til að komast að glæðum. Enn er því eldur í húsinu en hann varð aldrei verulega mikill í nótt.

Töluverður hópur slökkviliðsmanna var að störfum í alla nótt eða þar til um klukkan fimm í morgun. Sjö slökkviliðsmenn eru nú við vinnu á vettvangi. 

Sigurbjörn Guðmundsson, varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is klukkan sex í morgun að fryst hefði í nótt og það hefði gert slökkviliðsmönnum erfiðara fyrir. Brunaslöngur á vettvangi hefðu frosið og tíma myndi taka að hreinsa allan búnað þegar slökkvistarfi lyki að fullu.

„Svo hafa verið sjúkraflutningar eins og gengur á meðan og þeir eru nú orðnir yfir hundrað talsins frá því klukkan átta í gærmorgun,“ segir Sigurbjörn.

Ofan á þetta allt saman var slökkviliðið kallað að starfsstöð stoðtækjaframleiðandans Össurar við Grjótháls um miðnætti vegna sýruleka.

Þar hafði komið rifa á plasttunnu sem innihélt saltpéturssýru sem notað er í framleiðslu Össurar. Eitthvað af sýrunni lak út og gufur mynduðust. 

„Því þurftum við að fara í eiturefnaköfun með sérstökum búnaði,“ sagði varðstjórinn. Aðgerðin tók um þrjár klukkustundir og tóku sjö slökkviliðsmenn þátt í henni. Aðgerðum var svo lokið um klukkan tvö í nótt.

Slökkvilið að störfum í gærkvöldi.
Slökkvilið að störfum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert