70 fleiri kvartanir í fyrra en 2016

Embætti landlæknis.
Embætti landlæknis. mbl.is/Kristinn Ingvarsson.

Alls bárust 286 kvartanir embætti Landlæknis í fyrra en það eru 70 fleiri kvartanir en árið 2016. 120 þessara kvartana voru vegna samskipta við veitendur heilbrigðisþjónustunnar, 56 fleiri en fyrir tveimur árum síðan.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu Landlæknis fyrir árið 2017 sem hægt er að nálgast á vef embættisins. 

Tilkynningarskyld óvænt atvik voru 29 en kærur til velferðarráðuneytisins vegna málsmeðferðar kvartana, eftirlitsaðgerða, synjana um starfsleyfi eða rekstur heilbrigðisþjónustu og fleira voru níu.

Í skýrslunni kemur fram að embætti Landlæknis sé lögum samkvæmt skylt að sinna erindum frá hverjum þeim notanda heilbrigðisþjónustu sem telur sig hafa orðið fyrir vanrækslu, mistökum eða ótilhlýðilegri framkomu af hálfu þeirra sem þjónustuna veita.

Birgir Jakobsson, fráfarandi Landlæknir, skrifar í aðfaraorðum að flest markmið sem sett voru í starfsáætlun hafi gengið eftir. Hann lét af störfum sem Landlæknir um síðustu mánaðamót en hann er tekinn við starfi aðstoðarmanns Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.

Birgir Jakobsson fráfarandi landlæknir.
Birgir Jakobsson fráfarandi landlæknir. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert