Morfínneysla aukist frá síðasta hausti

Aukin neyslan á morfíni í deiglunni á fundi SÁÁ í …
Aukin neyslan á morfíni í deiglunni á fundi SÁÁ í gærkvöldi. Neytendur eru ekki margir en vandinn sár. mbl.is/​Hari

„Vandamálið nær ekki til stórs hóps, en þegar ungt fólk deyr af notkun morfínskyldra lyfja eru þau tilvik auðvitað mjög átakanleg,“ segir Þórarinn Tyrfingsson læknir. Hann var framsögumaður í gærkvöldi á fundi SÁÁ þar sem vaxandi fíkn í morfínskyld lyf, sem hefur verið til umræðu að undanförnu, var í deiglunni.

Lyfjameðferð breytt batahorfum til batnaðar

Þórarinn segir að í skrám SÁÁ séu upplýsingar um 20 þúsund núlifandi Íslendinga með áfengis- og vímuefnafíkn. Af þeim hópi séu 4,4% einstaklingar sem hafi ánetjast morfíni, og 80% af þeim hafi sprautað þessum efnum í æð. Frá 1999 hefur SÁÁ boðið upp á lyfjameðferð við þessari fíkn sem skilar góðum árangri og breytt batahorfum sjúklinganna verulega til batnaðar.

„En skyndidauðsföll vegna öndunarhömlunar þessara lyfja er mikið vandamál meðal þeirra sem ekki eru á lyfjameðferðinni, einkum byrjenda í neyslunni,“ segir Þórarinn.

„Sjúkraflutningamenn ættu að hafa heimild til þess að nota nefúðann Nalaxon sem getur bjargað miklu þegar fólk sem hefur neytt morfíns er komið í lífshættulegt ástand. Í dag mega aðeins læknar nota þennan úða en heimild til þess þarf að vera rýmri.“ Hann telur nauðsynlegt að nú verði tekin heilbrigð rökræða um meðferðarstarfið og forvarnir. Kerfið sé á heildina litið gott en hafi sína styrkleika og veikleika og gera verði betur og berja í þá bresti sem augljósir eru.

Neysla á dýrari fíkniefnum fylgi efnahag

Það var síðastliðið haust sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór að greina aukningu í neyslu örvandi efna, svo sem kókaíns, sem er blandað saman við róandi morfínskyld lyf. „Nei, ég get svo sem ekki sagt til um hvað nákvæmlega hratt þessu af stað síðastliðið haust. Oft er þó eins og neysla á dýrari fíkniefnum fylgi betri efnahag. Þegar fólk hefur úr meiru að spila fer það í þessi efni,“ segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Lögreglan þekkir vel til þessara mála og var fulltrúi embættisins með erindi á fundi SÁÁ í gærkvöldi.

Mikilvægt er, segir Margeir, að þeir sem sinna fólki sem er í vímuefnavanda séu í góðum samskiptum og þekki leiðir og möguleika til að koma þessum einstaklingum til hjálpar. „Oft hefur lögreglan fyrstu snertingu við fólk þegar það er illa statt og í neyslu. Vistun í fangageymslu er aldrei lausn, nema því aðeins að hætta sé á að viðkomandi fari sjálfum sér á voða eða sé hættulegur. Því er mikilvægt að lögreglan, SÁÁ og aðrir séum í góðu sambandi og getum komið þessu fólki til hjálpar, þegar og ef það hefur vilja til að þiggja aðstoð og sannarlega mættu úrræðin vera fleiri,“ segir Margeir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert