Ráðist á vef Ríkisútvarpsins

Tölvuþrjótar réðust á vefsíðu Ríkisútvarpsins í gærkvöld og lá hún fyrir vikið niðri í á fjórðu klukkustund að því er segir á vef þess.

Þar segir að árásin hafi lýst sér þannig að nokkrir hlekkir á vefsíðunni vísuðu út fyrir hana og á vafasamt efni. Þegar þetta hafi komið í ljós hafi vefnum verið lokað og hann ekki settur í loftið á nýjan leik fyrr en tryggt hafi verið að árásinni hefði verið hrundið. Haft er eftir Baldvini Þór Bergssyni, dagskrárstjóra númiðla og Rásar 2, að árásin hafi verið gerð á vefumsjónarkerfi vefsíðunnar. 

„Það voru einkum notendur snjalltækja sem urðu fyrir óþægindum, enda virðast tölvuþrjótarnir hafa beint spjótum sínum að þeim. Farið hefur verið yfir öll öryggisatriði og gengið úr skugga um að notendur ruv.is verði ekki fyrir frekari óþægindum vegna árásarinnar.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert