Kvíðir að fara með nýbura heim

Ungabörn eru send heim af sængurlegudeild Landsspítalans frá og með …
Ungabörn eru send heim af sængurlegudeild Landsspítalans frá og með deginum í dag án þess að fá tryggða heimaþjónustu. mbl.is/Árni Sæberg

„Fólk er kvíðið og finnst þetta mjög óþægilegt,“ segir Hilda Friðfinnsdóttir, yfirljósmóðir á meðgöngu -og sængurlegudeild Landspítalans, þar sem senda þarf nýbakaða foreldra heim af deildinni í dag án þess að þeim sé tryggð heimaþjónusta vegna aðgerða ljósmæðra í kjaradeilu sinni við ríkið.

Tveir þriðju allra ljósmæðra sem sinna heimaþjónustu á landinu hafa lagt niður störf og því eru foreldrar uggandi yfir því að fara með nýbura heim þar sem hefðbundin eftirfylgd er ekki tryggð. Hilda leggur þó áherslu á að þau börn sem sem þurfa aukaþjónustu og eftirlit séu ekki send heim.

Búast má við að konur sem eru að eiga sín fyrstu börn muni þurfa að dvelja lengur á deildinni en vanalegt er. 24 pláss eru fyrir foreldra og börn þeirra á deildinni en að jafnaði fæðast um 10 börn þar á degi hverjum. Ástandið mun því versna hratt að sögn Hildu.„Við sjáum fram á að fólk þurfi að deila herbergjum en yfirleitt er reynt að komast hjá því. Þetta er bara mjög vond staða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert