„Ljóst að hann sagði ekki rétt frá“

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar.
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis, hefur boðað Ásmund Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra á fund nefndarinnar mánudaginn. Halldóra telur að Ásmundur hafi sagt ósátt í þingsal þegar málefni forstjóra Barnaverndarstofu voru til umræðu.

Halldóra spurði Ásmund Einar út í ásakanir á hendur Braga Guðbrandssyni, forstjóra Bandaverndarstofu, á Alþingi 26. febrúar. Þar sagði ráðherra orðrétt að „...niðurstöðurnar eru þær að Barnaverndarstofa eða forstjóri hennar hafi ekki brotið af sér með neinum hætti.“

Halldóra segir ljóst að miðað við umfjöllun Stundarinnar um málefni Braga hjá Barnaverndarstofu í morgun sé ljóst að Ásmundur hafi ekki sagt satt og rétt frá.

Í umfjöllun Stundarinnar segir að Ásmundur hafi búið yfir ítarlegum upplýsingum um afskipti Braga af barnaverndarmáli í Hafnarfirði og þrýsting sem hann beitti barnaverndarstarfsmann af vorkunnsemi við fjölskyldu manns sem grunaður var um kynferðisbrot gegn dætrum sínum.

Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta á Ásmundur að hafa vitað þegar ríkisstjórnin samþykkti 23. febrúar að útnefna Braga sem frambjóðanda Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. 

„Velferðarnefnd hóf frumkvæðisrannsókn inni í þessu barnaverndarmáli á sínum tíma aðallega út af þessum kvörtunum barnaverndarnefnda vegna Braga og Barnaverndarstofu,“ segir Halldóra við mbl.is.

„Svörin sem við fengum frá ráðherra voru einfaldlega á þá leið að Bragi hefði ekki brotið af sér í starfi. Einnig fengum við að heyra að þetta snerist ekki um einstaklinga, heldur samskiptavandamál og það ætti að fara í breytingar á barnaverndarkerfinu,“ bætir Halldóra við.

Halldóra og fleiri nefndarmenn velferðarnefndar sendu ráðherra beiðni um að fá öll gögn í málinu; öll tölvupóstsamskipti, minnisblöð og allt sem varpar ljósi á kvartanirnar. „Ég skoða þau annað hvort í dag eða um helgina. Það myndi þá sannreyna umfjöllun Stundarinnar,“ segir Halldóra.

„Það er allavega ljóst að hann [Ásmundur Einar] sat á upplýsingum og sagði ekki rétt frá.“

mbl.is