Andapar í góðu yfirlæti á bílastæði í Kópavogi

Andaparið eyðir árlega vorinu í pollum á bílastæði í Lindarhverfi …
Andaparið eyðir árlega vorinu í pollum á bílastæði í Lindarhverfi í Kópavogi. mbl.is/Þorsteinn

Það má segja að árlegur vorboði Kópavogsbúans Kóps Sveinbjarnarsonar sé heldur einstakur. Síðastliðin 5 ár hefur andapar hafið vorið á því að dvelja á bílastæðinu við hús hans í Lindarhverfinu.

„Þau eru búin að vera í um mánuð og þetta er fimmta árið sem þau koma. Þau koma þarna og fá að éta og drekka. Svo fer að styttast í að hún fari að hætta að koma og svo hættir hann seinna, svo sjást þau ekki fyrr en á næsta ári. Þá er hún örugglega farin að verpa,“ segir Kópur í samtali við mbl.is.

Kópur segir parið kippa sér lítið upp við umgengni manna. „Þær liggja bara í pollunum, það eru pollar á bílastæðinu eftir dekkin. Þar liggja þær, í pollunum, þær vilja bara liggja í vatni. Svo læt ég renna til þess að halda pollunum við. Ef maður er að vinna í bílunum liggja þær bara þarna við lappirnar á manni.“ Hann segir þó endurnar heldur smeykar við börn þar sem þau vilja oft bara elta þær og leika með þær.

Góðu vön

Steggurinn og kollan fá ágætisæti hjá Kópi, en hann segir parið láta reglulega vita af sér. „Ég er alltaf að gefa þeim ef ég á leið hjá. Þær vaða inn í bílskúr og láta vita af sér ef þær hafa ekkert til að éta. Þær garga bara.“

Kópur segist sprauta vatni reglulega á stéttina til þess að viðhalda pollunum í innkeyrslunni sinni. „Þetta er gaman að hafa greyin þarna, þau sitja bara þarna og stundum hverfa þau hálfa daga,“ segir hann.

Spurður hvort hann sjái fram á að halda áfram að sinna parinu svarar Kópur því játandi. „Á meðan maður tórir og þær koma þá sé ég fram á það. Ja, við erum tveir eiginlega sem sinnum þeim við erum með húsin í endanum á lengjunni. En þetta er bara vorboðinn okkar.“

Kópur segist bleyta stéttina til þess að parinu líði vel.
Kópur segist bleyta stéttina til þess að parinu líði vel. mbl.is/Þorsteinn

Kollan ræður

„Það er dálítið sérstakt sko að þetta er algjört konuríki. Hann er alltaf á eftir henni. Hann fer ekkert og stendur ekki upp nema hún standi upp. Hún borðar fyrst og svo fær hann restina,“ staðhæfir Kópur.

Blaðamaður spyr hvort hér sé um að ræða ofríki hennar eða umhyggju hans. „Ætli það sé ekki hvort tveggja. Hann virðist gæla svoleiðis við hana, hún ræður öllu. Svo er maður kannski að henda í hann, bitinn liggur kannski smá frá og hann stendur ekki upp til þess að borða, því hann þorir ekki að hreyfa sig ábyggilega,“ segir Kópur og hlær. „Alla vega á meðan hún er að borða,“ bætir hann við.

Að sögn Kóps var kollan heldur ræfilsleg þegar hún kom í vor. „Ég hélt hún væri að drepast, en nú er hún orðin bústin og mikil.“

Hann segir parið vekja athygli meðal nágranna hans þar sem fólk eigi það til að stoppa og horfa á endurnar, ekki síst börnin. Spurður um umferðina í hverfinu segir Kópur „það er nú einhver traffík hérna, bílarnir eru oft að bíða á meðan þau eru að labba yfir götuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert