Ný gögn fullnægi kröfum Hæstaréttar

Frá aðalmeðferð í héraðsdómi í Chesterfield-málinu. F.v.: Hreiðar Már Sigurðsson, …
Frá aðalmeðferð í héraðsdómi í Chesterfield-málinu. F.v.: Hreiðar Már Sigurðsson, Almar Þór Möller, hdl. og aðstoðarmaður verjanda, Sigurður Einarsson og Gestur Jónsson, hrl. og verjandi Sigurðar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Verjendur í Chesterfield-málinu svonefnda (CLN-málinu), fengu í dag frest til 12. júní nk. til þess að kynna sér ný gögn Björns Þorvaldssonar, saksóknara í málinu, sem lögð voru fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag. Björn telur að gögnin séu fullnægjandi með tilliti til þeirra athugasemda sem Hæstiréttur gerði þegar dómur héraðsdóms í málinu var ómerktur í haust. Þannig geti aðalmeðferð í héraðsdómi farið fram að nýju.

Málið var höfðað gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra, Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni, og Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, en þeir voru ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa mis­notað aðstöðu sína hjá bank­an­um og stefnt fé hans í veru­lega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga. 

Umrædd lán námu um 508 millj­ón­um evra og voru veitt á tíma­bil­inu ág­úst til októ­ber 2008. Með þeim var fjárfest í láns­hæfistengdum skulda­bréfum Deutsche Bank sem tengd voru skulda­trygg­inga­álagi Kaupþings með það að mark­miði að lækka skulda­trygg­inga­álagið.

Eftir að sýknudómurinn gekk í héraðsdómi komu fram upplýsingar um samkomulög sem gerð höfðu verið um greiðslur til Kaupings annars vegar og Chesterfield United og Partridge Management Group hins vegar í árslok árið 2016, en á grundvelli samkomulagsins var hætt við málsókn á hendur Deutsche Bank. 400 milljónir evra runnu til Kaupþings vegna samkomulagsins. Vegna skorts á upplýsingum um samningana var dómur héraðsdóms ómerktur.

Ákæruvaldið og sakborningar vissu ekki af samkomulaginu, en eftir að um það var fjallað í fjölmiðlum kröfðust þremenningarnir frávísunar í Hæstarétti og vísuðu til þess að rannsókn málsins hefði verið í ósamræmi við lög um meðferð sakamála. Á það var ekki fallist, dómur héraðsdóms ómerktur og málinu vísað til meðferðar þar að nýju.

Rannsókn saksóknara fullnægi kröfum Hæstaréttar

Hæstiréttur tiltók í dómi sínum í haust að þörf væri á frekari rannsókn um samkomulagið. Þannig lægi ekki fyrir af hvaða ástæðum greiðslurnar í lok árs 2016 hefðu verið framkvæmdar, né heldur á hvaða rökum Kaupþing og félögin tvö hefðu reist málsókn sína á hendur Deutsche Bank.

Enn fremur væri ekki ljóst hvers eðlis greiðslurnar hefðu verið, þ.e. hvort um væri að ræða samningsbundnar greiðslur eða skaðabætur og þá hvers eðlis þær bætur væru. Beindi Hæstiréttur því til saksóknara að samkomulagið yrði rannsakað betur. Saksóknari hefur nú framkvæmt þessa rannsókn.

Líkt og áður segir telur Björn gögnin svara þeim spurningum sem Hæstiréttur varpaði fram um samkomulag Kaupþings annars vegar og Chesterfield United og Partridge Management Group hins vegar. Hann vill þó ekki upplýsa efnislega um hvað þar kemur fram að svo stöddu.

„Verjendur fengu frest til að kynna sér gögnin til 12. júní. Þau byggja á gagnaöflun og skýrslutökum af vitnum frá þessum aðilum sem komu að þessum samningum. Svo kemur í ljós 12. júní hvert framhaldið verður. Það gæti verið að verjendur leggi fram ný gögn eða óski frekari gagna,“ segir Björn. „Við teljum að allt komi fram í þessum gögnum sem Hæstiréttur taldi þörf á því að upplýsa. Þetta þýðir það að aðalmeðferðin getur farið fram aftur í héraði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert