Nýr meðferðarkjarni í sjónmáli

Nýr meðferðarkjarni Landspítalaþorpsins verður 66 þúsund fermetrar.
Nýr meðferðarkjarni Landspítalaþorpsins verður 66 þúsund fermetrar.

Nýr meðferðarkjarni Landspítalans er í sjónmáli og stefnt er að opnun hans árið 2024. Meðferðarkjarninn verður langstærsta bygging uppbyggingarinnar við Landspítalann við Hringbraut, eða 66 þúsund fermetrar. Þetta kom fram í kynningarmyndbandi um uppbyggingu Landspítalaþorpsins við Hringbraut sem sýnt var á ársfundi spítalans í Silfurbergi Hörpu í dag.

Þá fer rannsóknarhúsið, þar sem umfangsmikil og dreifð þjónusta rannsóknardeilda á Landspítala mun sameinast, fara í fullnaðarhönnun á árinu. Rannsóknarhúsið verður staðsett vestan Læknagarðs.

Önnur uppbygging sem er í undirbúningi er bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús, auk viðbyggingar við læknagarð.

Undirbúningur Landspítalaþorpsins hófst árið 2010, en fullnaðarhönnun þess nýtur aðferðarfræði notkunarstuddrar hönnunar og áhersla verður lögð á þarfir nemenda á heilbrigðisvísindasviði.

Eins og staðan er í dag fer starfsemi Landspítalans fram á 20 stöðum í um 100 byggingum, en um 9.000 sjúklingar eru fluttir með sjúkraflutningum á milli Hringbrautar og Fossvogs ár hvert.

Á háannatíma eru ekki nema 10% þeirra í umferðinni starfsmenn á Landspítalanum við Hringbraut, en aðkomuleiðir að spítalanum verða enn betri með bættum almenningssamgöngum. Þá mun bílastæðum fjölga úr 1.100 í 2.000 með uppbyggingunni, en í kynningarmyndskeiðinu sagði að aukin hagræðing fælist einnig í því að starfsfólk geti hjólað og gengið til vinnu. Nú þegar notar stór hluti starfsfólks spítalans, allt að 40%, virkan ferðamáta til að komast til vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert