Hefur þegar greitt brotaþola bætur

mbl.is/Hjörtur

Tekist hafa fullar sættir á milli lögreglumanns, sem dæmdur var í Héraðsdómi Reykjavíkur síðasta sumar fyrir að beita fanga ofbeldi, og þess sem fyrir ofbeldinu varð. Þessu greindi lögmaður brotaþolans, Stefán Karl Kristjánsson, frá þegar málið var tekið fyrir í Landsrétti í morgun.

Þannig hefði lögreglumaðurinn greitt brotaþolanum bætur og brotaþolinn gerði ekki kröfu um að lögreglumaðurinn yrði látinn sæta refsingu vegna málsins. Lögreglumaðurinn var dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi í héraði og til að greiða 400 þúsund krónur í miskabætur auk vaxta.

Farið var fram á það af hálfu Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar, verjanda lögreglumannsins, og af hálfu brotaþolans að þinghaldið yrði lokað vegna fyrirhugaðrar sýningar á myndbandi úr eftirlitsmyndavél fangelsisins á Litla-Hrauni af atvikinu sem málið fjallar um. Saksóknari taldi ekki þörf á því.

Dómarar fóru afsíðis til þess að taka afstöðu til þeirrar óskar og féllust að því loknu á að þinghaldið yrði lokað að hluta þannig að myndbandið yrði ekki sýnt á stórum skjám í dómsalnum heldur einungis á skjám í borðum dómara sem verjandi og saksóknari fengu heimild til þess að horfa á.

Taldi að fanginn ætlaði að ráðast á sig

Lögreglumaðurinn lýsti því fyrir dómi að hann hefði játað að hafa tekið harkalega á fanganum en neitaði því að hafa veitt honum áverka sem getið er í ákæru. Sagðist hann hafa það verklag að kynna sér einstaklinga í upplýsingakerfi lögreglunnar sem hann þurfi að hafa afskipti af.

Brotaþolinn hafi verið skráður sem sérstaklega hættulegur lögreglumönnum. Hann hafi verið æstur og sagði lögreglumaðurinn að honum hefði stafað ógn af honum og upplifað óöryggi við þessar aðstæður sem hann hafi staðið einn gagnvart. Eitthvað hafi brostið sem ekki hefði gerst áður.

„Ég upplifði það bara þannig að maðurinn væri að fara að ráðast á mig,“ sagði lögreglumaðurinn. Þegar hann hafi mætt til vinnu daginn eftir hafi hann ákveðið að greina yfirmanni sínum frá því að fyrra bragði að hann teldi að þarna hafi ekki verið farið alfarið eftir reglum.

Lögreglumaðurinn sagðist ennfremur hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að halda upptökunni úr eftirlitsmyndavélinni til haga sem sönnunargang ef til þess kæmi. Sagðist hann hafa gert sér grein fyrir því að hann hafi farið aðeins of langt og viljað koma hreint fram strax frá byrjun.

Lögreglumaðurinn áréttaði að hann hefði þegar greitt bætur til brotaþolans en það væri í samræmi við þá reglu hans að gera upp sín mál. Sagðist hann aðspurður hafa hafið störf í lögreglunni í almennri deild árið 2005 og síðan starfað um árabil í sérsveitinni og síðan miðlægri deild.

Hefði einfaldlega sleppt reiðinni lausri

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari flutti málið fyrir hönd ákæruvaldsins. Sagði hann ákæruvaldið fara fram á þyngri refsingu en una engu að síður niðurstöðu héraðsdóms. Brotaþolinn hefði vissulega verið æstur en það hafi ekki beinst gegn lögreglumanninum persónulega.

Lagði Helgi áherslu á að brotaþolinn hefði verið í belti og með handjárn fest við það þegar lögreglumaðurinn hefði beitt hann umræddu ofbeldi. Lögreglumanninum hafi mátt vera ljóst að við þær aðstæður hafi honum ekki verið í hættu. Hann hafi einfaldlega sleppt reiðinni lausri.

Velti saksóknari fyrir sér hvort það hafi hugsanlega haft áhrif að þá hafi lögreglumaðurinn verið kominn í sterkari aðstöðu. Þessi framganga væri í öllu falli algerlega ólíðandi hjá lögreglumanni. Hann hefði fullan skilning á aðstæðum lögreglumannsins en hann hafi misbeitt valdi sínu.

Helgi sagði ennfremur að læknir hafi staðfest að brotaþolinn hefði orðið fyrir minniháttar áverkum vegna málsins. Vísaði hann til máls þar sem lögreglumaður var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að beita of mikilli hörku við handtöku á ölvaðri konu á Laugavegi í Reykjavík.

Benti saksóknari á að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að tilefni hefði verið til handtöku í því máli en hins vegar hafi lögreglumaðurinn gengið of langt. Konan hefði þó hrækt á lögreglumanninn áður sem hafi beinst að honum persónulega. Eðlilegt væri að gera kröfu um þyngri refsingu nú.

Lækninum var ekki kunnugt um átökin

Verjandi lögreglumannsins, Jóhannes Rúnar, fór fram á sýknun en til vara að refsingu yrði frestað og til þrautavara að hún yrði felld niður. Þrautaþrautavarakrafa væri að honum yrði gerð vægasta möguleg refsing. Lögreglumaðurinn hefði þegar gert allt í hans valdi til þess að upplýsa málið.

Jóhannes áréttaði að lögreglumaðurinn hefði viðurkennt bótaskyldu og þegar greitt bætur. Hann hefði ennfremur viðurkennt sök fyrir utan ágreining um áverkana. Sagði hann að læknisvottorð byggt á framburði brotaþola einu rökin fyrir því að lögreglumaðurinn hefði valdið áverkunum.

Benti Jóhannes á að læknirinn hefði upplýst að honum hafi ekki verið kunnugt um það þegar hann gaf út vottorðið að brotaþolinn hefði lent í átökum skömmu áður þar sem hnífum hafi verið beitt. Hann hafi aldrei tekið afstöðu til þess hvort áverkarnir gætu verið afleiðing þeirra átaka.

Jóhannes sagði ákæruvaldið verða að bera hallann af skorti á sönnunargögnum í þessum efnum. Benti hann einnig á að brotaþoli ætti að baki langan sakaferil og hafi ítrekað ráðist á lögreglumenn. Meðal annars hafi hann hlotið dóm fyrir að hafa skallað lögreglumann handjárnaður.

Ræddi hann einnig Laugavegsmálið og sagði um ólík mál að ræða. Lögreglumaðurinn í því máli hefði að hans mati beitt meiri hörku og síðan neitað sök og bótaskyldu. Í þessu máli hefði lögreglumaðurinn viðurkennt sök og bótaskyldu, haft frumkvæði að athugun málsins og gert allt til að upplýsa það.

Verið lögreglumanninum þungbært

Sagði Jóhannes að fyrir vikið væri óskiljanlegt að skjólstæðingur hans hefði í héraði verið dæmdur í tvöfalt þyngri fangelsisrefsingu en var raunin í Laugavegsmálinu. Sagði hann fleiri dóma sýna að dómstólar hefðu tekið með ýmsu móti á slíkum málum. Þar á meðal með sýknu.

Lagði hann áherslu á að yrði lögreglumaðurinn dæmdur til fangelsisrefsingar væri starf hans í hættu. Ólíklegt væri að hann héldi því ef til þess kæmi. Jafnvel þó dómurinn yrði skilorðsbundinn.

Segja mætti að lögreglumaðurinn hefði þegar tekið út refsingu. Honum hefði verið vikið tímabundið frá störfum, væri á hálfum launum en ekki fullum og þegar greitt bætur og sæst við brotaþolann sem gerði ekki kröfu um refsingu. Málið hefði ennfremur eðlilega verið honum mjög þungbært.

Saksóknari sagði ákvörðun um starfsmissi vera lögreglunnar og væntanlega yrði þar tekið mið af ákveðnum forsendum eins og reynslu og framgöngu í starfi. Það ætti ekki að hafa áhrif á niðurstöðu dómsins. Þá sagð hann þá dóma sem Jóhannes nefndi ekki vera fordæmisgefandi í þessu máli.

Lagði Helgi að lokum áherslu á að ákæruvaldið gerði kröfu um þyngri refsingu en væri engu að síður reiðubúið að una niðurstöðu héraðsdóms um 60 daga skilorðsbundið fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert