Íslenska treyjan hangir uppi á pítsustað í Þýskalandi

Francesco Forino, Monika Bruqaj og Hildur Heimisdóttir sameinast í aðdáun …
Francesco Forino, Monika Bruqaj og Hildur Heimisdóttir sameinast í aðdáun á knattspyrnu og alveg sérstaklega íslenska karlalandsliðinu. mbl.is

Starfsmenn ítalska veitingastaðarins Pizzeria Monaco í miðborg München í Þýskalandi eru ákveðnir í að láta fjarveru ítalska landsliðsins á HM í sumar ekki slá sig út af laginu. „Auðvitað er hræðilegt að Ítalía sé ekki með, en við heilluðumst alveg af íslenska liðinu á síðasta Evrópumeistaramóti og ætlum að halda með því á HM,“ skrifaði Monika Bruqaj, rekstrarstjóri staðarins, í bréfi hingað til lands. Og nú hangir landsliðstreyjan uppi á vegg á Pizzeria Monaco, ásamt veggspjöldum af landsliðinu.

Forsaga málsins er sú, að Hinsegin kórinn fór til München í síðustu viku á kóramótið Various Voices 2018, sem 91 kór frá 20 löndum tók þátt í. Við undirbúning utanferðar höfðu kórfélagar samband við ítalska staðinn Pizzeria Monaco til að sjá hvort hann gæti tekið við 50 manna hópi í mat að loknu kóramóti. Monika rekstrarstjóri tók fyrirspurninni fagnandi og lýsti sérstakri aðdáun á Íslandi, Íslendingum og þó alveg sérstaklega íslenska karlalandsliðinu. Það fylgdi líka sögunni að staðurinn ætti treyju áritaða af þýska kappanum Bastian Schweinsteiger, sem hefði komið þar við í pítsu, svo ekki þurfti að efast um einlægan fótboltaáhuga staðarhaldara.

Hinsegin kórinn ákvað snarlega að Pizzeria Monaco-fólk yrði að geta sýnt aðdáun sína og stuðning við íslenska landsliðið um alla veggi veitingastaðarins. Hildur Heimisdóttir, fulltrúi kórsins, afhenti Moniku og Francesco Forino því landsliðstreyju og veggspjöld, við afar óformlega athöfn á veitingastaðnum, og gat um leið upplýst ítölsku pítsugerðarmennina um að aðdáun Íslendinga á pítsum væri vafalaust engu minni en aðdáun þeirra á fótbolta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert