Fljúgandi trampólín skemmdu bíla

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eitt þeirra mörgu trampólína sem fuku af stað í hvassviðrinu á Suðurnesjum um helgina lenti á tveimur bílum og skemmdi þá talsvert. Lögreglan á Suðurnesjum hafði á tímabili í nógu að snúast við að hefta för þessara fljúgandi muna og koma þeim tryggilega fyrir svo ekki hlytust frekari óhöpp af þeirra völdum, segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Bílvelta varð á Suðurstrandarvegi um 14 kílómetra austur af Grindavík um helgina. Tvennt var í bifreiðinni og voru þau flutt með sjúkrabifreið á Landspítalann í Fossvogi. Um var að ræða erlenda ferðamenn og munu meiðsl þeirra ekki hafa verið alvarlegs eðlis.

Fleiri umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina en þau voru öll minni háttar og ekki urðu slys á fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert