Fjórfalt fleiri ábendingar til Þjóðskrár

Þjóðskrá Íslands hefur fengið talsverðan fjölda ábendinga vegna lögheimilisflutninga í …
Þjóðskrá Íslands hefur fengið talsverðan fjölda ábendinga vegna lögheimilisflutninga í maímánuði. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is hefur fengið frá Þjóðskrá Íslands hefur stofnunin til skoðunar lögheimilisskráningu fjögurra frambjóðenda. Ábendingum vegna rangrar skráningar lögheimilis fyrir maímánuð hefur til þessa fjölgað um 464% milli ára.

Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og staðgengill forstjóra Þjóðskrár Íslands, segir í samtali við mbl.is að á þessu stigi sé ekki ljóst hvort stofnunin nái að klára úrvinnslu allra þeirra ábendinga sem borist hafa stofnuninni fyrir kjördag.

2.000 mál á ári

Í þessum mánuði hafa Þjóðskrá Íslands borist 79 ábendingar um ranga skráningu lögheimilis, en í maí 2017 bárust 17 slíkar ábendingar. Af 79 ábendingum varða fjórar frambjóðendur til sveitarstjórna.

Ástríður segir að fjöldi ábendinga vegna rangrar skráningar lögheimilis hafi aukist mjög mikið undanfarna daga og telur ekki ólíklegt að það tengist umfjöllun fjölmiðla. Hún bendir á að algengt sé að ábendingum um ólögmætar lögheimilisskráningar fjölgi nokkuð í kringum kosningar. Við þessar kosningar er hins vegar um að ræða óvenjumargar ábendingar til Þjóðskrár, samkvæmt Ástríði.

Hún segir Þjóðskrá Íslands vinna úr um 2 þúsund málum er varða skráningu lögheimilis einstaklinga á hverju ári.

Fjölgaði um 40%

Það vakti talsverða athygli fjölmiðla að íbúum Árneshrepps fjölgaði um 40% í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga sem eru á laugardag, 26. maí. Á tímabilinu 24. apríl til 4. maí fluttu sautján einstaklingar lögheimili sitt í hreppinn, en fyrir bjuggu aðeins um 40 einstaklingar þar. Í kjölfarið hóf Þjóðskrá Íslands skoðun á tilkynningum um lögheimilisflutninga í Árneshrepp.

Fleiri dæmi eru um að mál hafi komið upp vegna óhefðbundinna lögheimilisflutninga, meðal annars í sambandi við skráð lögheimili Einars Birkis Einarssonar, bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, sem Þjóðskrá úrskurðaði að hefði búsetu í Kópavogi.

Þá hefur mbl.is einnig fjallað um lögheimilisskráningu Ásthildar Lóu Þórsdóttur, frambjóðanda Framsóknarflokksins í Reykjavík og formanns Hagsmunasamtaka heimilanna, sem staðfesti við mbl.is að hún væri með skráð lögheimili í Reykjavík þrátt fyrir að vera búsett í Garðabæ, þar sem eiginmaður hennar og börn eru með skráð lögheimili.

Tekið er fram að í tilviki Ásthildar er ekki vitað hvort mál hennar sé til skoðunar hjá Þjóðskrá Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert