Lögregla kannar búsetu í Árneshreppi

Lögreglan á Vestfjörðum hefur kannað búsetuna í dag.
Lögreglan á Vestfjörðum hefur kannað búsetuna í dag. mbl.is/Eggert

Lögreglan á Vestfjörðum hefur kannað búsetu á nokkrum lögheimilum í Árneshreppi í dag vegna lögheimilisflutninga sem Þjóðskrá Íslands hefur til sérstakrar skoðunar. Ein ástæða rannsóknarinnar er að lögheimilisbreytingarnar þóttu hlutfallslega mjög miklar að mati Þjóðskrár, en fjölgunin nemur 40% miðað við fyrri íbúafjölda.

Alls fluttu sautján einstaklingar lögheimili sitt í Árneshrepp, sem er fámennasta sveitarfélag landsins, á tímabilinu 24. apríl til 4. maí, en kjörskrá í sveitarstjórnarkosningum 26. maí miðast við 5. maí. Fjöldinn þótti mikill á stuttum tíma og teknar voru til skoðunar skráningar síðustu tvær vikurnar fyrir viðmiðunardag kjörskrár.

Bent hefur verið á að ný sveitarstjórn muni geta haft mikið að segja um fyrirhugaða byggingu Hvalárvirkjunar. Eva Sigurbjörnsdóttir, sveitarstjóri í Árneshreppi, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í dag.

Hrafn Jökulsson, forseti skákfélagsins Hróksins, tjáir sig um málið á Facebook-síðu sinni í kvöld, en hann segir að barnsmóðir hans sé ein þeirra sem fengið hafi heimsókn frá lögreglunni. 

Búseta könnuð á nokkrum stöðum

Þjóðskrá hefur heimild til að óska aðstoðar lögreglu þyki þörf á vegna rannsókna lögheimilismála. Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Þjóðskrár Íslands og staðgengill forstjóra stofnunarinnar, staðfestir í samtali við mbl.is að fyrir helgi hafi verið ákveðið að nýta heimildina.

„Ég get upplýst að þessi heimild var nýtt. Það var haft samband við stjórnvöld fyrir vestan, það er liður í málsmeðferðinni að nýta þessa heimild sem er til staðar,“ segir hún, en bætir við að sér sé þó ekki kunnugt hvernig lögregla framkvæmi könnunina. 

„Við óskum eftir þessari aðstoð, að kanna búsetu á tilteknum heimilisföngum. Ég get samt ekki sagt til um hvað lögreglan gerir. Við fáum síðan skýrslu þegar rannsókninni er lokið,“ segir hún og bætir við að það sé því undir lögreglu komið hvenær niðurstaða liggi fyrir.

Þjóðskrá aflar enn annarra gagna um lögheimilisflutningana og ekki liggur fyrir hvenær málinu lýkur. „Við getum ekkert sagt um niðurstöðuna fyrr en öll gögn hafa borist. Þetta eru annars vegar upplýsingar sem við óskum eftir frá þessum einstaklingum sjálfum og síðan upplýsingar sem við óskum eftir frá öðrum aðilum, t.d. lögreglu,“ segir Ástríður.

Engu málanna lokið hjá Þjóðskrá

Í fréttum undanfarna daga hafa nokkrir einstaklinganna lýst yfir ástæðum lögheimilisflutninganna. Þannig segjast sumir þeirra eiga rætur í Árneshreppi en einnig hafa komið fram þær skýringar að viðkomandi stundi nám annars staðar á landinu.

Í yfirlýsingu Ólafs Valssonar, kaupfélagsstjóra í Norðurfirði, sagði, vegna lögheimilisflutninga dóttur hans og stjúpdóttur, að þær væru báðar námsmenn. Þær hafi bent Þjóðskrá á þetta og að málin féllu einfaldlega um sjálf sig.

Ástríður segir að athuguninni sé ekki lokið gagnvart neinum þeirra sem um ræðir. „Við bíðum enn fullnægjandi gagna til að geta tekið ákvörðun. Það sem kemur fram verður svo metið í framhaldinu. Við þurfum síðan alltaf að horfa til laganna um það hvar fólk hafi fasta búsetu og þá hvort undanþáguskilyrði laganna eigi við, einkum um námsmenn og þingmenn,“ segir hún. „Það hafa ekki verið teknar ákvarðanir í neinu málanna enn þá,“ segir hún.

Aðspurð segir hún að ekki hafi borist svör frá öllum aðilum, en samkvæmt heimildum mbl.is hafa minnst tíu einstaklingar sem fengu bréfsendingu frá Þjóðskrá mótmælt og krafist gagna frá Þjóðskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert