Neitaði ekki að skrifa undir friðlýsinguna

Árneshreppur að vetrarlagi.
Árneshreppur að vetrarlagi. mbl.is/Sunna Logadóttir

Fulltrúi Árneshrepps í starfshópnum um friðlýsingu Dranga kannast ekki við að hafa neitað að skrifa undir friðlýsinguna. Hann kveðst þó ósáttur við þann mikla þrýsting sem fyrrverandi umhverfisráðherra hafi beitt í þessu málefni og lýsir vinnubrögðum hans sem kjánalegum.

Vestfirski fréttamiðillinn Bæjarins besta greindi frá því í gær að jörðin Drangar í Árneshreppi hefði verið friðlýst af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, tveimur dögum áður en ný ríkisstjórn leit dagsins ljós með tilheyrandi uppstokkun ráðuneyta.

Kom þá einnig fram að fulltrúi Árneshrepps í starfshópnum um friðlýsingu Dranga hefði neitað að skrifa undir friðlýsinguna.

Drangaskörð, sem eru á friðlýsingarsvæðinu.
Drangaskörð, sem eru á friðlýsingarsvæðinu. mbl.is/Sigurður Bogi

Kjánaleg vinnubrögð umhverfisráðherra

Arinbjörn Bernharðsson, umræddur fulltrúi, segist í samtali við mbl.is ekki kannast við að hafa neitað slíku, enda hafi aldrei verið skjal fyrir hendi sem hann var beðinn um að skrifa undir. Bætir hann við að fundirnir hafi farið fram í gegnum fjarfundabúnað. Segir hann það í verkahring ráðherra að skrifa undir friðlýsinguna.

Arinbjörn tekur þó fram að hann hafi verið afar ósáttur við þann mikla þrýsting sem þáverandi umhverfisráðherra hafi beitt til að fá friðlýsinguna samþykkta rétt áður en hann fór úr embætti. Vinnubrögð ráðherra hafi verið „kjánaleg“.

Hins vegar hafi hann enga efnislega athugasemd varðandi friðlýsinguna sjálfa enda telur hann ekki að hún muni hafa áhrif á nærliggjandi jarðir og telur hann það hafa verið skoðað með fullnægjandi hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert