75 ára gekk einn á Hvannadalshnúk

Luigi Rampini og Marnie reyndu við Everest 2005 og hittust …
Luigi Rampini og Marnie reyndu við Everest 2005 og hittust fyrir tilviljun á Hvannadalshnúk. Ljósmynd/Sigurður Ragnarsson

„Þetta er mest tilviljanakenndi hlutur sem ég hef nokkurn tíma lent í,“ segir fjallaleiðsögumaðurinn Sigurður Ragnarsson í samtali við mbl.is. Sigurður og Erlingur Geirsson fjallaleiðsögumaður urðu fyrir óvæntri uppákomu síðastliðinn miðvikudag þegar þeir voru að klífa Hvannadalshnúk með viðskiptavini sínum og rákust á hinn 75 ára Luigi Rampini, sem var einn á ferð og kunningi viðskiptavinarins.

Sigurður segir í samtali við mbl.is að þau hafi verið á leið upp á Hvannadalshnúk og töldu sig vera eina fólkið á fjallinu. „Það er mikil þoka og lélegt skyggni og það birtir svona af og til, þá sjáum við einstaka sinnum einhvern einn mann áður en við komum upp á jökulinn. Við fórum síðan bara upp á Hvannadalshnúk, en við fórum ekki alla leið þar sem við vorum runnin út á tíma. Þegar við snúum við mætum við þessum manni og hann mátti ekkert vera að tala við okkur þá, hann var að drífa sig upp á topp. Svo hittum við hann aftur þegar við erum komin af jökli, þá var hann búinn að ná okkur,“ segir Sigurður.

Á þessum tíma áttar viðskiptavinurinn sig á að hún kannast við manninn sem var einn að göngu, en þau hittust þegar þau reyndu bæði við Everest 2005, með því að klifra sjálfstætt og án súrefnis, að sögn Sigurðar.

Ekki ráðlagt að fara á fjöll einn

Sigurður sagði fyrst frá uppákomunni í stöðufærslu á Facebook í gær. Þar sagði hann að það væri alveg ótrúlegt að tveir einstaklingar frá ólíkum heimshlutum sem báðir hafa reynt við Everest og þekkja hvor annan, skyldu hittast á leiðinni upp á Hvannadalshnúk af öllum stöðum.

Við mbl.is segir Sigurður að Rampini hafi gist í tjaldi og ekki verið með bíl, heldur hafi hann gengið milli staða. Mætti því segja að hann væri mikill göngugarpur.

Fram kemur í máli Sigurðar að Rampini sé mjög reyndur og að það sé alls ekki ráðlagt að ganga á fjöll og jökla einn. „Þetta er alls ekki sniðugt,“ segir hann.

Fjóra daga á hættusvæði

Þegar Rampini var 69 ára árið 2012 gerði hann tilraun til þess að klífa Everest-fjall. Þegar slæmt veður skall á 19. maí 2012 sneri gönguhópur hans við, en hann neitaði að gera hið sama og ákvað að bíða eftir tækifæri til þess að ná til toppsins. Þetta leiddi til þess að hann varð fastur á hættulegasta svæði fjallsins, sem er í 8.300 metra hæð, í fjóra daga.

Tveimur af þessum fjórum dögum hafði Ítalinn hvorki mat né drykk og er talið að hann hafi verið heppinn að komast lífs af án þess að verða fyrir líkamlegum áverkum vegna kulda. Hann var á tíma talinn látinn en honum var bjargað 23. maí 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert