Verði þrjár annir í stað tveggja nú

Dúxinn Ólafur Hálfdan Pálsson (t.v.), skólameistarinn Kristinn Þorsteinsson og semi-dúxinn, …
Dúxinn Ólafur Hálfdan Pálsson (t.v.), skólameistarinn Kristinn Þorsteinsson og semi-dúxinn, Logi Örn Axel Ingvarsson. Ljósmynd/ Gunnar H. Ársælsson

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ brautskráði alls 103 nemendur frá skólanum við hátíðlega athöfn í gær. Dúx skólans að þessu sinni var Ólafur Hálfdan Pálsson, af alþjóðabraut, með 9,22 í meðaleinkunn. Fast á hæla hans fylgdi semi-dúxinn Logi Örn Axel Ingvarsson, af Náttúrufræðabraut með 9,17 í meðaleinkunn.

Kristinn Þorsteinsson skólameistari fjallaði í ræðu sinni um nauðsyn þess að efla enn frekar listnám við skólann, en til eru teikningar af viðbyggingu við skólann sem ætlað er að hýsa listnám. Hætt var við þær framkvæmdir vegna bankahrunsins árið 2008 og sagði Kristinn mikilvægt að þráðurinn væri tekinn upp að nýju.

Þá tilkynnti hann einnig að frá og með hausti 2019 yrði nám við FG þrjár annir, en ekki tvær eins og hið hefðbundna form er. Telur hann að bæði mæting og námsárangur muni batna við þessar breytingar, sem þýða að nemendur verða í færri áföngum á hverri önn.

Flestir þeirra sem útskrifuðust voru af listnámsbraut, alls 20, og 18 nemendur brautskráðust af náttúrufræðabraut. Skólaárið í FG var þróttmikið og náði hápunkti þegar skólinn sigraði í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, í fyrsta sinn fyrr á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert