Kaflaskipti í MK

Á myndinni má sjá nemendur sem fengu verðlaun og viðurkenningar …
Á myndinni má sjá nemendur sem fengu verðlaun og viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Ljósmynd/Aðsend

Alls voru 259 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum í Kópavogi í tveimur útskriftarathöfnum sem fóru fram í Digraneskirkju í vor. 

Sú breyting er að eiga sér stað að skólinn er að breytast úr fjögurra ára bóknámsskóla í þriggja ára og í vor útskrifaðist síðasti hópurinn sem eftir var í fjögurra ára kerfinu og sá fyrsti sem lýkur námi á þremur árum.

Stúdentar sem útskrifuðust voru 84 talsins og iðnnemar 49.

Að auki útskrifuðust 14 ferðafræðinemar, 43 leiðsögumenn, 13 matsveinar, 39 úr meistaraskóla matvælagreina, 16 af framhaldsskólabraut og 1 af starfsbraut.

Verðlaun fyrir góðan námsárangur

Ása Richardsdóttir, varaforseti bæjarstjórnar, afhenti útskriftarnemum viðurkenningu fyrir góðan námsárangur úr Viðurkenningarsjóði MK sem var stofnaður af bæjarstjórn Kópavogs árið 1993.

Fimm nemar hlutu viðurkenningu að þessu sinni, þau Viktor Brynjarsson, Guðmundur Axel Blöndal, Alexandra Friðfinnsdóttir, Elías Sigurðsson og Hilmar Örn Hafsteinsson.

Að auki fengu þrír nemendur styrki fyrir góðan námsárangur frá Rótarýklúbbum.

Rótarýklúbbur Kópavogs veitti Steinunni Sheilu Guðmundsdóttur verðlaun fyrir árangur í raungreinum, Rótarýklúbburinn Borgir veitti Hilmari Erni Hafsteinssyni verðlaun fyrir árangur í iðnnámi og Rótarýklúbburinn Þinghóll veitti Hörpu Rós Guðmundsdóttur verðlaun fyrir árangur í félagsgreinum.

Þá unnu nemar í framleiðslu og matreiðslu til gull- og silfurverðlauna í Norrænu nemakeppninni í Kaupmannahöfn á dögunum.

Jafnréttismál og jafnlaunavottun

Á vorönn voru jafnréttisdagar haldnir árlegir í tólfta sinn og í ár var #metoo byltingin rædd en skólinn hefur sett sér nýja stefnu um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti og ofbeldi.

Í apríl fór fram launagreining eftir starfaflokkun og kyni þar sem niðurstaðan varð sú að ekki er launamunur milli kynja í MK og skólinn hefur því óskað eftir jafnlaunavottun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert