Fór utan í horn Norðurgarðsins

Rispa er á hlið skipsins eftir að það fór utan …
Rispa er á hlið skipsins eftir að það fór utan í horn Norðurgarðsins. Ljósmynd/Kristján Þór Júlíusson

Litlu munaði að illa færi i morgun er skemmtiferðaskipið Ocean Diamond kom inn til hafnar í Reykjavíkurhöfn. Skipið fór utan í  horn Norðurgarðsins er það kom í höfn og er nú rispa á hlið þess. 

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra vakti athygli á þessu á Facebook-síðu sinni og birtir þar myndir af skipinu. „Ekki mátti miklu muna að þessi hitti ekki hafnarkjaftinn i morgun,“ segir í færslu ráðherra.

Að sögn Jóns Þorvaldssonar aðstoðarhafnarstjóra þá er sú sterka austanátt sem nú er, ástæða þessa að svo fór. Segir hann skipið hafa farið utan í vitahausinn á Norðurgarðinum. „Það er talsverður strekkingur og skipið hefur komið þarna við vitann,“ segir hann og kveður hafnsögumann hafa verið um borð líkt og alltaf sé.

„Skipið er komið að bryggju núna,“ bætir Jón við og kveður rispu vera á hlið þess. Hann viti hins vegar ekki hvort að tjón hafi orðið á vitanum eða horni Norðurgarðsins.

Ocean Diamond hefur áður komið að bryggju í Reykjavíkurhöfn. „Þetta er ekki stórt skip,“ segir Jón enda takmarki hafnarmynni gömlu hafnarinnar stærð þeirra skipa sem þangað geti komið inn. „Þar sem það eru ekki nema um 100 metrar á milli vitanna.“

Kortið sýnir siglingaleið Ocean Diamond og er ljóst að skipið …
Kortið sýnir siglingaleið Ocean Diamond og er ljóst að skipið átti í nokkrum vandræðum með að komast inn um hafnarmynnið í strekkingnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert