Sigríður aðstoðar umhverfisráðherra

Sigríður Víðis Jónsdóttir
Sigríður Víðis Jónsdóttir mbl.is/Árni Sæberg

Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur verið skipuð aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra. Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að Sigríður sé með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands og meistarapróf í þróunar- og átakafræðum frá University of East Anglia á Bretlandi.

Sigríður hefur síðastliðin ár stýrt kynningarmálum hjá UNICEF á Íslandi þar sem hún hóf störf árið 2011. Hún skrifaði bókina Ríkisfang: Ekkert sem kom út árið 2011 og segir frá hópi palestínskra kvenna sem flúðu Írak árið 2008 og enduðu á Akranesi.

Sigríður er sem stendur í fæðingarorlofi en hún mun hefja störf í áföngum í sumar áður en hún kemur til fullrar vinnu 1. september. 

Sigríður kemur í stað Sifjar Konráðsdóttur sem aðstoðaði Guðmund Inga umhverfisráðherra en henni var sagt upp störfum í febrúar. Auk Sigríðar er Orri Páll Jóhannsson búfræðingur aðstoðarmaður umhverfisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert