Erna Kristín nýr formaður stjórnar UNICEF

Erna Kristín Blöndal flytur ávarp.
Erna Kristín Blöndal flytur ávarp. mbl.is/Arnþór

Erna Kristín Blöndal er nýr formaður stjórnar UNICEF á Íslandi. Hún tekur við formannssætinu af Guðrúnu Ögmundsdóttur, sem tekur nú sæti borgarfulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta kom fram á ársfundi UNICEF í morgun.

Erna Kristín er verkefnastjóri í málefnum barna hjá velferðarráðuneytinu. Áður starfaði hún sem lögfræðingur og verkefnastjóri hjá innanríkisráðuneytinu, nú dómsmálaráðuneyti. Hún var sérfræðingur þverpólitískrar þingmannanefndar um útlendingamál sem samdi það frumvarp sem varð að núgildandi lögum um útlendinga nr. 80/2016.

Síðastliðin tvö ár hefur Erna verið framkvæmdastjóri norrænnar stofnunar um fólksflutninga sem hefur meðal annars lagt áherslu á rannsóknir sem lúta að réttindum barna. Samhliða hefur hún sinnt doktorsnámi í lögfræði á sviði mannréttinda, auk þess að sitja í stjórn UNICEF á Íslandi, að því er kemur fram á vef velferðarráðuneytisins.

Á ársfundinum tóku tveir nýir stjórnarliðar sæti í stjórn, þær Guðrún Hálfdánardóttir og Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir. Guðrún er blaðamaður hjá Mbl.is og hefur fjallað mikið um málefni barna. Lilja Hrund er nýútskrifuð úr Verzlunarskóla Íslands og er fulltrúi Ungmennaráðs UNICEF í stjórn.

Nýja stjórn UNICEF á Íslandi sem tók við í dag skipa: Erna Kristín Blöndal stjórnarformaður, Kjartan Ólafsson varaformaður, Líney Rut Halldórsdóttir, Gunnar Hansson, Guðrún Hálfdánadóttir, Guðrún Nordal, Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir, fulltrúi ungmennaráðs, Sigríður Thorlacius og Styrmir Gunnarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert